Hræsnarinn ég

Fattaði nokkru eftir að ég skrifaði færsluna hér á undan hvað ég get verið ógurlegur hræsnari.  Þar var ég að gera grín að kristnum mönnum án þess að skammast mín eða að gæta mín á því að særa ekki sannkristna einstaklinga sem sjá ekkert spaugilegt við það að hafa Svarthöfða við opnun prestastefnu.

Ég er hræsnari að því leyti að mér þykir ógurlegt þegar gert að grín að öðrum trúarbrögðum og orð eins og vanvirðing fljúga gegnum huga mér.  Mér fannst ekkert fyndið við teikningar Jótlandspóstsins né finnst mér almennt fyndnir brandarar sem gera grín að öðrum trúarbrögðum.  Sér í lagi er maður eitthvað viðkvæmur fyrir gríni í garð Íslamstrúar enda þau trúarbrögð mest undir smásjánni þessi misseri.  En þegar kemur að því að flissa að vitleysunni um Jesú þá bregður öðru við.  Mér finnst Jón Gnarr t.d. sjúklega fyndinn í Símaauglýsingunum sem hafa sært margan Kaþólikkan og ég hef að sama skapi hneikslast ógurlega að þessu stífa fólki sem hefur engan húmor.

Af hverju finnst mér í lagi að gera grín að kristni en ekki að íslam?  Bæði trúarbrögðin finnst mér sem trúleysingja algjör steypa og finnst í raun ótrúlegt að nokkur maður trúi þessu bulli.  En ætti ég ekki að vera meiri kona en það að gera upp á milli trúarbragða og bera virðingu fyrir hvoru tveggja?

Kannski er þetta eins og maður hefur sjálfur einkarétt á því að tala illa um t.d. mömmu sína (ekki það að ég geri það eitthvað mamma mín!) en ef einhver annar gerði það yrði maður spinnegal.  Það er því kannski í lagi fyrir manneskju eins og mig sem hefur alist upp í kristnu samfélagi að finnast Jesúbrandarar fyndnir en fyllast óbeit þegar gert grín er að Múhameð spámanni.

En eitt skal yfir alla ganga segi ég!  Því skal ég hætta að gera grín að kristnum, (alla vega á opinberum vettvangi) því ekki legg ég í að ganga hina leiðina og fara að segja múslimabrandara.  En ósköp væri það nú gott ef allir sæju bara skondnu hliðina á þessu bulli öllu saman og það mætti gera grín að öllu heila klabbinu því hvað er ekki fyndið við það að trúa á einhvern ósýnilegan almáttugan guð! 

Sko þarna tókst mér að móðga alla trúaða á einu bretti og því ekki hægt að saka mig um einelti í garð einhverra trúarbragða!  


Svarthöfði og guðsmenn

svarthöfðiÞetta finnst mér sjúklega gott glens, kannski vegna þess að ég er guðleysingi og ber ekkert sérstaklega virðingu fyrir kirkjunar mönnum.  Biskipnum finnst þetta samt minna fyndið en þarna skallinn  til hægri er eitthvað glottandi, greinilega hressari en restin af liðinu.

Endurvinnslan?

endurvinnslaÉg held að ég sé ein af allt of fáum sem nenni að standa í því að þvo allar endurvinnanlegar umbúðir til að safna saman og fara svo með í endurvinnsluna.  Þá er ég ekki að tala um mjólkurfernur heldur niðursuðudósir, glerkrukkur og plastílát.  Þetta hef ég þvegið samviskusamlega í nokkra mánuði og safnað saman úti í geymslu og beðið eftir að hafa tækifærið til að aka með þetta í endurvinnsluna.  Þar sem litla systir mín og bíleigandi er í útlöndum fór ég loks með allt draslið í Sorpu.  Við innganginn var ofurhress starfsmaður sem sagði mér hvert ég ætti að setja mismunandi rusltegundir.  Einn gáminn benti hann á að ætti að setja í plast.  Þegar ég leit ofan í þótti mér eitthvað dularfullt að hreinu jógúrtdollurnar mínar ættu að fara í sama gám og froðuplast og bónuspokar með einhverju óræðu drasli í.  Spyr ég þá starfsmanninn aftur hvort þetta sé rétt og hann segir svo vera.  Gusa ég því úr pokanum ofan í gáminn.  Þegar ég svo sný mér við sé ég gám sem stendur á að eigi að setja í hreinar plastumbúðir.  Arg, hvað ég varð pirruð.  Helvítis endurvinnsla, að vera búin að standa í þessu stússi bara til að keyra með það eitthvert og henda í gám sem innihald hans verður vafalítið ekki endurunnið.  Sama gilti um niðursuðudósirnar, þeim var mér gert að henda í sama gám og þvottavél var í og eitthvað annað véladót.  Þykir mér dularfullt að hreinar áldósir eigi að fara í sama endurvinnslupakkann og óhreint, eldgamalt véladrasl. 

Eins og ég fór hress í bragði af stað í endurvinnsluferð mína, fannst ég vera fyrirmyndarborgari og miklu betri en þið hin sem hendið öllu beint í ruslatunnuna, fór ég pínu sorgmædd þaðan.  Hin barnslega trú mín að það væri í alvöru verið að endurvinna dótið sem ég þvæ, þurrka, flokka, safna í geymslunni minni og keyri svo með er í raun að engu orðin.  Vona samt að þetta hafi bara verið vondur dagur hjá Sorpu liðinu, sumarstarfsmenn sem kunna ekki neitt og svona.  Ætla alla vega að halda áfram að flokka og skila en kannski með aðeins meiri fýlusvip en áður. 

Vona samt að þetta letji engan í að reyna að endurvinna...


Ísbjarnarblús

bangsiÉg veit að í fréttum er stanslaust verið að sýna mannlega harmleiki en ísbjarnarfréttin í gær fékk þó mest á mig af öllum þeim fréttum sem ég hef horft á.  Ég veit ekki af hverju mér finnst erfiðara að horfa á ísbjörn skotinn heldur en að sjá börn liggjandi í blóði sínu á stríðshrjáðum svæðum. Kannski segir það eitthvað um skítlegt eðli mitt.  Hvað veit ég.

En að sjá þessa helvítis kalla í camouflage með byssur, ótrúlega stollta að stilla sér upp fyrir framan líkið af bangsa til myndatöku, fékk mig til að nötra af reiði.  Djöful hljóta þeir að hafa verið spenntir að fá að skjóta ísbjörn, eflaust draumur byssuóðra veiðimanna að fá að plamma niður villt rándýr.

Skömm sé umhverfisráðherra og öllum þeim sem komu nálægt þessu ömurlega máli.


Hlerað heimili

Skv. frétt á Visi.is var núverandi heimili mitt hlerað

 Eftirtalin heimili voru hleruð á árunum 1949-1968.

1. Arnar Jónsson og Þórhildur Þórleifsdóttir, bjuggu þá á Kleppsvegi 132 í Reykjavík
2. Áki H. J. Jakobsson og Helga Guðmundsdóttir, bjuggu í Drápuhlíð 36 í Reykjavík
3. Árni Einarsson og Hlín Ingólfsdóttir, bjuggu í Miðtúni 16 í Reykjavík
4. Björn Kristmundsson, bjó á Bollagötu 10 í Reykjavík
5. Brynjólfur Bjarnason og Hallfríður Jónasdóttir, bjuggu á Brekkustíg 14B í Reykjavík
6. Eðvarð Sigurðsson og Ingibjörg S. Jónsdóttir (móðir hans), bjuggu í Litlu Brekku
7. Eggert Þorbjarnarson og Guðrún Rafnsdóttir, bjuggu á Langholtsvegi 35 í Reykjavík
8. Einar Angantýsson og Guðríður Einarsdóttir, bjuggu á Hofsvallagötu 23 í Reykjavík
9. Einar Olgeirsson og Sigríður Þorvarðardóttir, bjuggu á Hrefnugötu 2 í Reykjavík
10. Finnbogi Rútur Valdimarsson og Hulda Jakobsdóttir, bjuggu á Marbakka í Kópavogi
11. Guðlaugur Jónsson og Margrét Ólafsdóttir, bjuggu á Hverfisgötu 104B í Reykjavík
12. Guðmundur Hjartarson og Þórdís Þorbjörnsdóttir, bjuggu á Hraunteigi 23 í Reykjavík.
13. Guðmundur Vigfússon og Marta Kristmundsdóttir, bjuggu þá á Bollagötu 10 í Reykjavík.
14. Hannibal Valdimarsson og Sólveig Ólafsdóttir, bjuggu þá á Laugarnesvegi 100 í Reykjavík.
15. Haraldur S. Norðdahl og Valgerður Jónsdóttir Norðdahl, bjuggu þá á Bergstaðastræti 66 í Reykjavík.
16. Hjalti Árnason og Sigríður Friðriksdóttir, bjuggu þá á Snorrabraut 32 í Reykjavík.
17. Jens Hallgrímsson og Sigríður Ólafsdóttir, bjuggu þá á Baugsvegi 35 í Reykjavík.
18. Jón Bjarnason og Jóhanna Bjarnadóttir, bjuggu þá á Skólavörðustíg 19 í Reykjavík.
19. Kristinn E. Andrésson og Þóra Vigfúsdóttir, bjuggu 1951 í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík en 1961 á Kleppsvegi 34 í Reykjavík.
20. Lúðvík Jósepsson og Fjóla Steinsdóttir, bjuggu þá á Miklubraut 80 í Reykjavík.
21. Magnús Kjartansson og Kristrún Ágústsdóttir, bjuggu þá á Háteigsvegi 42 í Reykjavík.
22. Páll Bergþórsson og Hulda Baldursdóttir, bjuggu þá í Skaftahlíð 8 í Reykjavík.
23. Ragnar Arnalds og Hallveig Thorlacius, bjuggu þá í Bólstaðarhlíð 14 í Reykjavík.
24. Sigfús A. Sigurhjartarson og Sigríður Stefánsdóttir, bjuggu þá á Laugateigi 24 í Reykjavík.
25. Sigurður Guðmundsson og Ásdís Þórhallsdóttir, bjuggu þá á Fálkagötu 1 í Reykjavík.
26. Sigurður Guðnason og Kristín Guðmundsdóttir, bjuggu þá á Hringbraut 88 í Reykjavík.
27. Snorri Jónsson og Agnes Magnúsdóttir, bjuggu þá á Kaplaskjólsvegi 54 í Reykjavík.
28. Stefán Bjarnason og Rósa S. Kristjánsdóttir, bjuggu þá á Sunnuvegi 19 í Reykjavík.
29. Stefán Jakobsson og Guðrún Guðjónsdóttir, bjuggu þá á Háteigsvegi 30 í Reykjavík.
30. Stefán Ögmundsson og Elín Guðmundsdóttir, bjuggu þá í Þingholtsstræti 27 í Reykjavík.
31. Úlfur Hjörvar og Helga Helgadóttir Hjörvar, bjuggu þá á Bergþórugötu 1 í Reykjavík.
32. Þráinn Haraldsson og Unnur Kristjánsdóttir, bjuggu þá í Stóragerði 10 í Reykjavík.

 

Spurning hvort enn sé hlerunarbúnaður í híbýlunum og hleruð séu öll hápólitísku leyndarmálin sem ég og systir mín ræðum á síðkvöldum.  Eða svona frekar horfum á One Tree Hill og ræðum hvernig nammi við eigum að kaupa okkur með því. 


Trylltir Dalvíkingar

Það skemmtilegasta við Júróviosion í gær var að fylgjast með Dalvíkingunum tryllast úr fögnuði þegar hann Friðrik þeirra komst áfram í úrslitin.  Það hefði mátt halda að hann hefði unnið eitthvað, slík var gleðin. Yndislega sveitó og huggulegt!

Í grjótinu

Var að koma úr vettvangsferð á Littla Hraun.  Afar merkilegur staður og ekki svo kósí.  Held það væri góðar fyrirbyggjandi aðgerðir að fara með unglinga þangað, svona til að sýna þeim að þarna langar engan að fara.  Fékk innilokunarkennd bara við það að sjá inn í klefana.  Oj, gott að maður er ekki afbrotamaður.fangi

Fjólublái hjálm-maðurinn

Þegar maður lifir rútínulífi er oft auðvelt að upplifa sig eins og Bill Murray í Groundhog Day.  Sami dagurinn aftur og aftur.  Maður vaknar, klæðir sig, borðar morgunmat, hjólar í vinnuna o.s.frv.  Fann sérstaklega fyrir þessu í Stokkhólmi þegar maður var alltaf með sama fólkinu í lestinni. 

Í fyrra sumar upplifði ég þetta mjög sterkt af því að ég mætti alltaf, á hverjum einasta degi, manninum með fjólubláa reiðhjólahjálminn.  Þegar vetra tók lagði hann greinilega hjálminn á hilluna en nú er hann kominn aftur á stjá, líkt og vorboðinn ljúfi!  Hann á greinilega heima á svipuðum stað þar sem ég vinn og vinnur á svipuðum stað þar sem ég á heima því ég hef hitt hann á öllum mögulegum stöðum á leiðinni hvort sem það er efst á Hverfisgötu eða hjá Hagatorgi.  Við vinnum líka greinilega á nákvæmlega sama tíma, því ég mæti honum á báðum leiðunum.  Þetta verður reyndar svolítið vandræðalegt með tímanum þar sem mér er farið að líða eins og við þekkjumst og finnst eins og ég eigi að heilsa honum en samt væri það eitthvað lummó. 

En ég er vanaföst kona og það er ekkert nema huggulegt að mæta þeim fjólubláa, nikka honum kannski kumpánalega þegar ég mæti honum á heimleiðinni.

 


Júró

euroÞá er Eurovision geðsýkin byrjuð.  Verð að viðurkenna að það að hafa þetta 3 kvöld í sömu vikunni dregur nú töluvert úr gleðinni.  Aldrei er góð vísa of oft kveðin sagði einhver, en ef vísan er jafn slök á þessi keppni þá gildir ekki alveg sama lögmál.  Hluti af Eurovision er líka að borða djúsí mat og fullt af nammi og flögum og þegar þetta er að verða daglegt brauð, fer sjarminn pínu af því að sitja upp í sófa og troða sig út eins og svín. 

Á mínum yngri árum var ég afar mikill Eurovision aðdáandi.  Ég tók allar keppnirnar upp á kasettur og hlustaði á þær aftur og aftur í vasadiskóinu mínu.  Tók svo reyndar yfir þær þegar gelgjan færðist yfir.  Þyrfti líklega 3 kasettur ef ég vildi taka þetta upp í dag.  Ef það eru þá til kasettur lengur.

En maður heldur nú auðvitað með sínu liði þó ég dauðskammist mín að vissu leyti fyrir þau þarna aflituð og kaffibrún með eitthvað næntís júrótrass popp.

Svo getur maður líka alltaf haldið með líklegri vinningshöfum eins og Svíum enda Svíþjóð mitt fyrrum heimili.  Alltaf skemmtilegra að vera í vinningsliðinu! Verst hvað hún er pirrandi pæjan þaðan, næstum eins og Eurobandið.


Mamma mín fjallgöngugarpurinn

mutterHún mamma mín er mikill dugnaðarforkur.  Hún gerði sér lítið fyrir og gekk upp á Hvannadalshnjúk síðustu helgi.  Er óneitanlega stollt af kellu og skammast mín að sama skapi fyrir hvað ég er mikil lufsa og það hæsta sem ég geng er upp á Arnarhól.  Verð kannski duglegri þegar ég er fimmtug.

En hér má sjá mutter lengst til hægri (eða held alla vega að þetta sé hún!)

Stollt af þér mútta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband