Endurvinnslan?

endurvinnslaÉg held að ég sé ein af allt of fáum sem nenni að standa í því að þvo allar endurvinnanlegar umbúðir til að safna saman og fara svo með í endurvinnsluna.  Þá er ég ekki að tala um mjólkurfernur heldur niðursuðudósir, glerkrukkur og plastílát.  Þetta hef ég þvegið samviskusamlega í nokkra mánuði og safnað saman úti í geymslu og beðið eftir að hafa tækifærið til að aka með þetta í endurvinnsluna.  Þar sem litla systir mín og bíleigandi er í útlöndum fór ég loks með allt draslið í Sorpu.  Við innganginn var ofurhress starfsmaður sem sagði mér hvert ég ætti að setja mismunandi rusltegundir.  Einn gáminn benti hann á að ætti að setja í plast.  Þegar ég leit ofan í þótti mér eitthvað dularfullt að hreinu jógúrtdollurnar mínar ættu að fara í sama gám og froðuplast og bónuspokar með einhverju óræðu drasli í.  Spyr ég þá starfsmanninn aftur hvort þetta sé rétt og hann segir svo vera.  Gusa ég því úr pokanum ofan í gáminn.  Þegar ég svo sný mér við sé ég gám sem stendur á að eigi að setja í hreinar plastumbúðir.  Arg, hvað ég varð pirruð.  Helvítis endurvinnsla, að vera búin að standa í þessu stússi bara til að keyra með það eitthvert og henda í gám sem innihald hans verður vafalítið ekki endurunnið.  Sama gilti um niðursuðudósirnar, þeim var mér gert að henda í sama gám og þvottavél var í og eitthvað annað véladót.  Þykir mér dularfullt að hreinar áldósir eigi að fara í sama endurvinnslupakkann og óhreint, eldgamalt véladrasl. 

Eins og ég fór hress í bragði af stað í endurvinnsluferð mína, fannst ég vera fyrirmyndarborgari og miklu betri en þið hin sem hendið öllu beint í ruslatunnuna, fór ég pínu sorgmædd þaðan.  Hin barnslega trú mín að það væri í alvöru verið að endurvinna dótið sem ég þvæ, þurrka, flokka, safna í geymslunni minni og keyri svo með er í raun að engu orðin.  Vona samt að þetta hafi bara verið vondur dagur hjá Sorpu liðinu, sumarstarfsmenn sem kunna ekki neitt og svona.  Ætla alla vega að halda áfram að flokka og skila en kannski með aðeins meiri fýlusvip en áður. 

Vona samt að þetta letji engan í að reyna að endurvinna...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Slæmt ad heyra ad starfsmennirnir seu ekki med thetta a hreinu... en vardandi ad setja thvegnar malmdosir i sømu tunnu og veladot hljomar nu bara ansi skynsamlega, eru ekki velar meira og minna ur einhverjum malmum? 

Eg er mjøg stolt af ther ad gera thetta! Thu ert fyrirmyndarborgari og allir ættu ad gera thetta alltaf!  Koma svo upp aftur med brosid ;-) allt skilar ser ;o)  thad er marg sannad ad thad borgar sig ad endurvinna.

thorhildur (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband