Undirmaðurinn ég

Þið vitið hvað það getur verið erfitt að byrja í nýrri vinnu.  Alla vega þykir mér það ekkert spes.  Maður er stressaður yfir því að yfirmaðurinn sé leiðinlegur og fúll.  Á morgun er ég að fara að vinna nýja vinnu og yfirmaður minn er einmitt 8 árum yngri litla systir mín.  Hún er svo sem ekkert leiðinleg og fúl (nema stundum) en það er samt óneitanlega dálítið hallærislegt að hún verði yfir mér.  Er að fara að vinna í fatabúð í fyrsta skipti á ævi minni, bara sem greiða við verslunarstjórann systur mína sem vantar starfsfólk.  Fæ greitt í fötum sem er ekki slæmt svona til að sleppa við skattinn.  Ætti kannski ekki að vera að auglýsa skattsvikin svona á almennum vettvangi. 

En ég sé þetta alveg í anda.  Ég kann ekki neitt og verð að spyrja hana allan daginn hvernig á að stimpla inn í kassann eða ná í buxur í öðru númeri og hún litla dýrið með yfirmannahroka að pirrast á mér, gömlu systur sinni.

Ég hef svo sem alltaf það tromp á hendi að geta fleygt henni á götuna, þar sem ég er nú leigusalinn hennar.  Það er því eins gott að hún verði góð við vitlausu mig.

Þennan gjörning má bera augum milli 11 og 16 í Dorothy Perkins í Smáralind.  Svona fyrir áhugasama!


Versta djobb í heimi?

prinsDjöful held ég að það sé leiðinlegasta starf í heimi að vera kóngafólk, nú eða sýndarmennskuforseti.  Að ferðast um í opinberar heimsóknir og allir ætlast til að þú sýnir hverjum einasta krakka sem veifar þér athygli og sért að springa úr æsingi yfir þeim sögum sem þér eru sagðar af heimamönnum.

Þegar ég horfði á fréttir í gær og sá fyrrum draumaprinsinn minn hann Frederik og konuna hans hana Mary rölta um Þingvelli í þunglyndislegum rigningarsudda, vorkenndi ég þeim óheyrilega.  Þarna var Sigurður Líndal að fræða þau um hvar þingin höfðu verið haldin og hvar nákvæmlega sá sem hafði orðið hefði staðið þegar hann talaði.  Aumingja Mary reyndi eitthvað að sýna þessu áhuga með því að spyrja Sigurð einhvers út í þetta afar áhugaverða atriði. 

Þegar ég er að ferðast til nýrra staða er ég svo sem alveg áhugasöm, svona fyrst um sinn, en þegar maður er búin að sjá hverja kirkjuna og kastalann á fætur öðrum fer sjarminn nú eitthvað að fara af þessu.  Og ekki geta þau nú gert þetta bærilegra með því að skvetta í sig, því það hæfir ekki fínu kóngafólki.

Ég fagna því þess vegna í dag, að hann Frederik blessaður hafi aldrei sýnt mér neinn áhuga.


Vorið?

Nú er ég loksins komin á sumardekkin.  Það ku víst vera komið sumar.  Af hverju er þá svona hvasst og ógeðslega kallt?  Ekki álitlegt að hjóla á sumardekkjunum fínu í þessum kulda.  Þá er nú ljúfara að þeysast um á nöglunum í frosti og logni. 

Er annars að fara til London á morgun, svo það mætti alveg eins snjóa hér á meðan mín vegna því að í London er bongóblíða.  Leiðinlegt fyrir ykkur hin.  Hef annars verið að fylgjast spennt með genginu síðustu vikurnar.  Mér líður eins og einhverjum hlutabréfaplebba þar sem ég gái oft á dag hvernig krónan stendur gagnvart pundinu.  Og þó ég viti ekki mikið um þessi mál, veit ég þó að á þessum síðustu og verstu tímum fæ ég færri brækur í H&M en ég hefði fengið fyrir 2 mánuðum.  Og það er ekki gott. 

Get þó alltaf setið bara úti í sólinni og drukkið bjór, því að bjórinn í útlöndum er alltaf ódýrari en á Íslandi, sama hvernig gengið stendur.


Völundarhúsið Reykjavík

Að keyra í Reykjavík er ekki góð skemmtun.  Ekkert er einfalt, svona eins og þegar maður ætlar að fara til vinstri þá taki maður næstu vinstri beygju.  Nei ó nei, þá er maður allt í einu komin eins langt til hægri og mögulegt er.  Ég keyri nú ekki oft bíl en þegar ég hef gert það og ætla t.d. upp í Kringlu frá miðbænum þá einhvern veginn enda ég alltaf hjá Umferðarmiðstöðinni því það eru einhver svona voðalega sniðug mislæg gatnamót sem maður einhvern veginn lendir í án þess að fatta nokkuð fyrr en allt er orðið of seint og ég komin hálfa leið inn í Vesturbæ.

Þannig var það seint í gærkvöldi að við systur vorum gráðugar.  Við ákveðum að fara á McDonalds í Skeifunni og kaupa okkur franskar og McFlurry.  Þar sem okkur líður best að borða heima hjá okkur (eitthvað svo græðgislegt og ósmart að borða skyndibita fyrir framan aðra, og hvað þá inni í lögðum bíl einhver staðar) þá ákveðum við að keyra eins fljótt og hægt er heim á leið áður en franskarnar kólnuðu og ísinn bráðnaði.  Þegar við vorum búnar að panta hjá vélinni hjá McDonalds ætluðum við að aka sem leið lá Miklubrautina heim í miðbæinn.  En allt í einu vorum við lentar í einhverri hringbraut og smám saman áttuðum við okkur á því að til að komast til hægri hefðum við átt að beygja til vinstri.  Nú vorum við allt í einu á leiðinni út úr bænum.  Þegar maður hefur einu sinni tekið vitlausa beygju á hraðbrautum Reykjavíkurborgar er ekki aftur snúið fyrr en maður er helst kominn í annað bæjarfélag.  Þannig þustum við upp í Árbæ með kólnandi franskar og bráðnandi ís, án þess að fá rönd við reist.  Ekki gátum við hugsað okkur að byrja að troða í okkur veitingunum í pirringskasti (reyndar hláturskasti þar sem við áttuðum okkur á hvað við vorum aumkunarverðar með McDonalds kl. 11 um kvöld á mánudegi að villast út í úthverfi). 

En við komumst að lokum heim eftir þessar hrakningar og gátum troðið okkur út af dýrindis krásunum. 

Ég spyr bara; er ætlast til að maður rati þetta allt saman, því ekki er neitt merkt.  Eða er ég svona illa gefin að fatta ekki hvernig á að rata um völundarhús Reykjavíkur?


Lokaorð mín af mótmælunum

Ætlaði að skrifa langa færslu til að láta í ljós vanþókknun mína á þessum blessuðu mótmælum.  Það eru bara svo margir búnir að því þannig að ég er ekki að nenna að bera í bakkafullan lækinn.  Daginn fyrir þennan sirkus rakst ég hins vegar á kvót sem á vel við þessa atburði svona til að setja hlutina í samhengi.  Læt þau verða mín lokaorð um þetta mál.

 While many are worrying about filling their gas tanks, many others around the world are struggling to fill their stomachs.

 

 


Hressandi á föstudegi

Þar sem ég er nú kattakona, finnst mér þetta sjúklega skemmtilegt myndband.  Ef þér finnst þetta ekki pínu krúttlegt ertu dauður að innan.

Góð stemning á Suðarlandsvegi

Allt að verða vitlaust bara.  Táragas og læti. 

Svo finnst fólki umhverfisgimpin ganga langt í mótmælum sínum. 


Kjötstykki á diskinn minn (og utan um i-podinn)

kjötMig langar í svona fínt kjöt i-pod hulstur.  Finnst þetta voðalega fínt og fyndið.  Sérstaklega þar sem í dag er orðið normið að vera kjöt-pempía og finnast kjöt ógeðslegt (nema einhvert kjúklingadrasl).  Þannig að sumargjöfin til mín í ár er svona kjötstykki, takk.

Kofamiðbærinn góði

Þar sem ég bý samkvæmt áliti fjölmiðla og eflaust margra annarra, við viðbjóðslegustu götu Reykjavíkurborgar (Hverfisgötu), hef ég að sjálfsögðu sterkar skoðanir á þessum svokallaða miðbæjarvanda.  Ég vil búa í miðbænum af því að þar er yfirleitt gott að búa og þrátt fyrir nokkur ógeðsleg hús og lóðir þar er meirihlutinn sérlega krúttlegur og heimilislegur.  Það sorglegasta við miðbæinn finnst mér einmitt að þessum krúttlega hluta er smám saman verið að eyða.  Sætu hlýlegu kofarnir sem gæða miðbæinn óneitanlega mesta sjarmanum, þykja ópraktískir og því má þá rífa.  Það er búið að tala um þetta í mörg ár og auðvitað skiptar skoðanir en hverjum meirihluta tekst að rífa nokkur hús eða alla vega tæma þau og láta þau grotna niður.  Ég er þó engin bókstafstrúar-kofakona og skil vel að einhverjir hjallar séu of illa farnir til að borgi sig að gera við þá og þó mér hafi þótt leitt þegar Sirkus var lokað þá hef ég á því nokkurn skilning þar sem húsið var að hruni komið.  Á móti kemur þó að til hefur staðið að rífa Sirkus (og það sem undan var) í mörg ár, og því hafa eigendur aldrei séð það borga sig að gera nokkuð fyrir húsnæðið.  Það sorglegasta sem ég hef nú séð vera að gerast við Laugarveginn eru að 2 mjög fín hús standa nú tóm og munu líklega verða það áfram þar sem ekki er orðið ljóst hvað gera skuli við þann reit sem þau standa á.  Þetta eru húsin þar sem Indókína var og einhver barnafatabúð.  Ég verð óheyrilega sorgmædd að horfa inn um gluggana og þar er ekkert.  Reyndar eru kannski Lækjargötubrunarústirnar enn sorglegri en það er komið ár síðan bruninn varð en enn þá hefur ekkert gerst ef frá eru taldar þessar ,,skemmtilegu" framhliðar sem hafa verið settar í kringum rústirnar.  Virkilega ömurleg lausn til að fela ljótleikann, að byggja þykjustunni hús.

Ekki er ég nú Reykvíkingur en finnst stundum eins og mér þyki töluvert vænna um það sem telst það reykvískasta (gott orð!) á landi hér, miðbæinn, heldur en þeim sem ráða því hvað verður um hann.

 


Afi gamli

pabbihefnerVarð að láta þessa skemmtilegu mynd hér inn, af honum afa mínum í gervi Hugh Hefner.  Gunni frændi setti þetta saman og má lesa bakþanka hans í Fréttablaðinu í dag til að átta sig betur á ástæðu þess að hann setti saman þessa mynd.

Finnst bara ansi skondið á sjá afa minn í þessu hlutverki, veit ekki hvort mér myndi líka það, finnst einhvern veginn amma eiga betur heima við hlið hans en þessar blondínur, þó það væru eflaust líflegri kaffiboð í fjölskyldunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband