Fyrsta farrýmið og Ömmi

Ögmundur Jónasson var í viðtali í Fréttablaðinu um helgina.  Fyrir þá sem ekki vita, þá er Ömmi einn af mínum uppáhalds stjórnmálamönnum.  Ég las því viðtalið og var sammála hverju orði sem hrökk af hans vörum, blinduð af aðdáun.  Áhugaverð fannst mér sú hugmynd hans að hætta að skipta farþegaflugvélum niður í fyrsta farrými og almennt.  Honum finnst það vera bruðl að borga töluvert hærri upphæð til að komast á sama stað bara til að geta fengið heitt handklæði til að þurrka sér með eftir matinn og sötra ókeypis kampavín.  Sérstaklega í ljósi þess að flestir ef ekki allir sem sitja í fyrsta farrými gera það á kostnað einhvers annars en sjálfs sín. 

Mér hefur einmitt þótt þessi skipting ótrúlega bjánaleg.  Sauðsvartur almúginn labbar í gegnum fyrsta farrýmið til að komast í sín lummó sæti aftar í vélinni.  Svo er dregið fyrir tjald svo fína fólkið fái að vera í friði fyrir okkur skrílnum.  Svo fáum við eitthvað sem minnir á Gordon bleu að borða á meðan fíneríis fólkið fær eflaust eitthvað voðalega fínt sem ég veit ekki hvað er því að enginn hefur boðið mér í fyrsta farrými. 

Áfram Ömmi!


Togga til Kína

ólEins og hefur varla farið fram hjá neinum, þá eru margir óhressir með Kínverja þessa dagana.  Ólympíuleikarnir hafa orðið fyrir þessum óvinsældum Kínverjana og einhverjir ætla að sniðganga þá.  En ekki Þorgerður Katrín enda búin að hlakka til að fara til Kína á Ólympíuleika í heillangan tíma.  Haldiði ekki annars að persónulegar langanir hafi stundum áhrif á pólitíkusa?  Þorgerður og familía búin að vera að telja niður dagana þangað til þau fara út og svo bara einhverjir Tíbetar með vesen að heimta sjálfstæði og Kínverjar með derring og vilja ekki tala við þá og þá bara eiga krakkarnir hennar Toggu að verða af þeirri upplifun sem það er að upplifa opnunarhátíð Ólympíuleika.  Reyndar eru íslenskir pólitíkusar ekkert frægir fyrir það að taka afstöðu þegar um mannréttindabrot er að ræða í öðrum löndum svo þetta er kannski ekkert nýtt.  En af hverju er samt Menntamálaráðherra sendur til að vera við Ólympíuleika, það er svo önnur pæling!?!

Gamla einkaþotumálið

Ég veit að ég er sein til en verð aðeins að fá að nefna einkaþotumálið.  Eins og þið farið kannski nærri, þá finnst mér það auðvitað skandall.  Og þar sem ég er umhverfishippi finnst mér það fyrirlitlegt að umhverfislegum ástæðum fremur en efnahagslegum.  Þannig að þegar forsætisráðuneytið gaf út einhverjar krónutölur hvað þetta húllumhæ hafi kostað, hefði ég gjarnan vilja fá útreikning á því hver úrgangslosunin var umfram það sem hefði verið ef ráðherrarnir og föruneyti þeirra hefðu farið með almenningsflugi.  Þórhildur Fjóla hefði jafnvel reiknað þetta út fyrir okkur.  Spurning annars hvort það hafi verið stuð í þessari vél, hvort Ingibjörg Sólrún hafi farið á trúnó með einhverjum blaðamanninum eða Geir hafi verið með dólgslæti, og þar sem þetta var einkaflug, ekki hægt að vísa honum frá borði í næstu höfn. 

En þið getið ímyndað ykkur hvað ég verð örg yfir einkaþotum ef að einkabílar ergja mig eins mikið og þeir gera.

Annars ætti ég auðvitað að vera að ergja mig yfir hækkandi matvælaverði en Gunni frændi er búin að tala svo mikið um það að ég nenni því ekki, hann virðist vera með kjúklingabringur jafn mikið á heilanum og ég með bíla.  Ég kaupi nú líka ekki það mikið af mat, meira bara af nammi og það eru minni upphæðir þannig að ég tek ekki eftir neinu.

Góða helgi


Endurkoman

Ég geri mér grein fyrir því hversu glatað það er að hætta við að hætta einhverju en þar sem ég virka illa undir pressu hef ég ákveðið að losa mig undan þessari pressu og byrja að blogga aftur.  Lofa hvorki að vera dugleg við það né sniðug en það mun tíminn leiða í ljós.  Vinir og ættingjar hafa kvartað sáran undan bloggleysinu og dreg ég af því tvenns konar ályktun; að bloggið mitt hafi verið skemmtilegt eða fólkið sem ég þekki hafi lítið við tíma sinn að gera. 

Oft hefur mig langað að tuða yfir einhverju á opinberum vettvangi en ekki haft til þess tækin.  Nú er ég svo sem ekkert uppfull af hugmyndum til að skrifa um en að sjálfsögðu er það eitt og annað sem bæði kætir mitt litla hjarta sem og grætir (og pirrar auðvitað).

Flestir sem búa í Reykjavík hafa orðið varir við umferðarteppur sökum mótmæla atvinnubílstjóra.  Þar sem ég er enn hjólandi kona hefur þetta fremur verið mér skemmtiefni fremur en til leiðinda.  Það hlakkar óneitanlega í mér þegar allt er stopp á götunum og ég bruna fram hjá frústreruðum bílstjórum á hjólinu mínu.  Nú hef ég þó ekkert allt of mikla samúð með málstaðnum, finnst það ekki vera mikilvægasta réttlætismálið í landinu að hafa lágt verð á bensíni (veit þeir eru líka að mótmæla einhverju öðru en bensínið skilst mér aðal).  Það er nefnilega kannski eina leiðin til að fólk hætti að keyra út í sjoppu í staðinn fyrir að labba þangað á 3 mínútum, að bensínið sé þeim mun okraðara.  Þess vegna segi ég, hækkið bensínið meira!  (Nema þegar ég þarf að fljúga til Akureyrar, þá má það vera lágt...) Já, ég er sjálfhverf en það er löngu ljóst.

Annars finnst mér þessi meinta kreppa pínulítið skemmtileg.  Það fyndnasta við þessa lægð í íslensku efnahagslífi er í rauninni að tala um kreppu.  Að segja að hér sé kreppa þegar við erum í raun að springa úr velsæld er einmitt svolítið sjálfhverft (svona eins og ég).  Mér finnst verið að gera lítið úr þeim ríkjum sem hafa það í alvörunni slæmt að nota svona dramatísk orð.  Og þetta segi ég sem er í fremur illa borguðu starfi, með 100% íbúðarlán og skrilljón í námslán og ætti því samkvæmt skilgreiningum einhverra spekulanta að vera á leið í skuldafangelsi.  Held að Íslendingar hafi pínulítið gott af því að hafa ekki efni á öllu sem þeim dettur í hug að kaupa og ef þeir hafa ekki efni á því, að rölta bara í bankann og fá lán. 

Læt gott nægja í bili, vona að ég hafi ekki misboðið einhverjum, eða jú annars, það er svo gaman að hneiksla.


Nennessekki

Er hætt að blogga.  Finnst þetta ekki gaman lengur.  Kannski kemur andinn yfir mig síðar, hver veit.

Bless


Crappy Valentinesday!

valFékk áskorun um að láta pirring minn í ljós í garð þess dags er ku vera í dag.  Sjálfum Valentínusardeginum. 

Þegar ég var á unglingsaldri þekkti maður ekki daginn af öðru en úr bandarískum sjónvarpsþáttum og bíómyndum.  Þá fannst mér hugmyndin afleit og aðeins til þess gerð að láta þeim einhleypu, viðkvæmu sálum sem margar eru til, líða illa yfir því að fá ekki eitthvað væmið kort með hjarta á.  Þá þakkaði ég mínum sæla að vera laus við þennan dag.  Nú hefur í nokkur ár borið á því að Íslendingar hafi tekið upp þennan kjánalega sið.  Kjánalega segi ég, því ég sé ekkert rómantískt við það að fólk gefi ástinni sinni (oj væmið) blómalufsur eða súkkulaði að maula vegna þess að einhver bandarískur siður kveður á um það.  Þetta á svo sem alveg við um aðra svona daga; af hverju ætti að vera gaman að fá eitthvað svona dót af því að það er samfélagslega viðurkennt að festa kaup á því en ekki af því að viðkomandi einstaklingur finnur það upp hjá sjálfum sér að gleðja einhvern annan. 

Sem sé, ef einhver hefði ætlað að senda mér blóm eða annan varning í tilefni dagsins bið ég viðkomandi um að eyða sparifénu sínu í eitthvað annað.  Við slíka sendingu myndi ég aðeins finna til ergelsis en ekki gleði.


Tennur

tennurVar hjá tannlækni í morgun sem er kannski ekki í frásögur færandi nema að ég hef ekki farið og hitt slíkan lækni í meira en 3 ár.  Ég hef því kviðið því nokkuð að allt væri komið í óefni þarna uppi í mér og viðgerðir myndu kosta mig mánaðarlaun.  Sú varð þó ekki raunin og tannlæknirinn sagði að ég væri með ,,æðislegan munn" og gaf mér afslátt af því að kjafturinn var svo frábær og heilbrigður.  Þeir sem mig þekkja, vita að ekki skarta ég hefðbundnu Colgate brosi, en gæðin engu að síður svona asskoti mikil.  Nú er ég ógeðslega góð með mig og þakka mínum sæla fyrir mínar hraustu tennur þrátt fyrir það að hafa grenjað yfir því í gamladaga hvað þær voru og eru skrítnar.  Ekkert að því að vera skrítinn, það er sem sé boðskapurinn!

Ég sem hélt að ég væri Hillary-kona

 Your Results:

89%
Gravel Mike Gravel
89%
Kucinich Dennis Kucinich
77%
Edwards John Edwards
74%
Obama Barack Obama
70%
Biden Joe Biden
70%
Clinton Hillary Clinton
69%
Dodd Chris Dodd
64%
Richardson Bill Richardson
41%
Giuliani Rudy Giuliani
33%
Paul Ron Paul
30%
McCain John McCain
28%
Romney Mitt Romney
26%
Huckabee Mike Huckabee
22%
Tancredo Tom Tancredo
13%
Thompson Fred Thompson

[url=http://www.gotoquiz.com/candidates/2008-quiz.html]2008 Presidential Candidate Matching Quiz[/url]

Innlit útlit

nýtt 065nýtt 071Síðustu vikuna hef ég dundað mér við það mála og veggfóðra ganginn heima hjá mér.  Ég viðurkenni það að þegar kemur að framkvæmdum er ég ekki mjög handlagin.  Ég þoli samt ekki að vera ósjálfbjarga þannig að ég rembdist í gegnum þetta.  Að setja upp veggfóður er ekkert grín svona fyrir mig.  En með dyggri aðstoð Dagnýjar systur komst það upp en eftir mikið bölv og ragn.  Á tímabili minntum við mjög á klaufabárðana sem voru á Rúv hér um árið.  Sér í lagi þegar við toguðum aðeins í hliðina á einni lengjunni og úr rifnaði smá bútur.  Hann var bara límdur á aftur enda nenntum við ekkert að setja nýja lengju.  Að blanda límið var líka smá ves og skildum við ósköp lítið í leiðbeiningunum.  Þegar límið var loks orðið klárt komst kötturinn í það og drakk smá slúrk.  Hún lifir enn og virðist ekki hafa orðið meint af.  En þetta er tilbúið og voða fínt finnst mér þó taugastrekkjandi hafi það verið.

Tommy og dömurnar

Djöful hlakkaði í mér þegar ég las um siðprýði Tommy Lee og allar skúffuðu dömurnar sem byðu spenntar í glyðrugallanum í plönuðu eftirpartíi fyrir "stjörnuna".  Ég veit ekki til þess að Tommy Lee hafi verið eitthvert sérstakt goð í augum íslenskra stúlkna nema þá greinilega þegar hann kemur hingað til lands, þá virðist vera nóg að vera frægur til að vera eftirsóttur af íslenskum grúppíum.  Ég sé fyrir mér að í hvert skipti sem dyrnar opnuðust inn á þennan eftirpartístað hafi dömurnar þrýst fram júllunum og vætt varirnar og vonbrigðin sem hafa svo færst yfir þegar það voru aðeins feitu rótararnir sem gengu inn.  Já, ég er illkvittin kona.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband