Þar sem mér skilst að framundan sé fermingarhelgi finnst mér tími til kominn að ég tjái mig um þennan skrítna viðburð. Aðallega langar mig að tjá skoðun mína á þessari athöfn til að fólk sé viðbúið í framtíðinni þegar það ætlar að ferma börn sín og langar til að bjóða mér. Er ekki viss um að ég verði vinsæll fermingarboðsgestur eftir þessa yfirlýsingu mína.
Ég er fermd. Ég græddi fullt af pening svo ekki get ég leyft mér að vera einungis neikvæð yfir að hafa játað því að Jesús væri frelsari lífs míns fyrir 13 árum. Held ég hafi örugglega keypt mér eitthvað voða fínt fyrir peninginn. Ég man líka að aðal umræður samgelgja minna eftir að þær höfðu drukkið blóð krists (hversu sjúkt er það) snérust um hvað þær hefðu fengið í fermingargjöf. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eitt einasta fermingarbarn tjáð sig nokkuð um þá himnesku upplifun sem það var að játast inn í hið kristna samfélag. Ég var ekkert betri sjálf enda bara vitlaus 13 ára unglingur sem elti fjöldann án þess að efast nokkuð um hverju ég trúði eða trúði ekki. Ég var mjög spennt í veislunni sjálfri að bregða mér aðeins afsíðis til að telja góssið sem mér hafði áskotnast frá hinum og þessum ættingjum sem ég þekkti mismikið. Allir höfðu hins vegar séð sig knúna til að gefa mér, barninu, andvirði alla vega eins vinnudags.
Það að kirkjan og guðsmenn standi fyrir þessum samkomum finnst mér fyrirlitlegt. Ég hefði ekkert á móti því að börn myndu fá fermingarfræðslu og fermast (þó það ætti auðvitað að vera einhverjum árum seinna en nú). Það að halda þurfi svo stóra veislu að margir foreldrar neyðast að setja sig í skuldir, því auðvitað þarf að gera allt húsið upp, fóðra veislugesti á dýrindis veitingum, kaupa á barnið tískufatnað og skella í hárgreiðslu, fyrir það eitt að bólugrafnir unglingar með peningaglampa í augum klæði sig í hvíta kirtla og setji upp helgislepjuandlitið í eins og eina klukkustund finnst mér óskiljanlegt. Sömuleiðis að boðsgestirnir eru í raun skikkaðir til að gefa stærri upphæðir en það hefur nokkra löngun til.
Eftir að ég missti alla trú og fór að líta gagnrýnum augum á þessa sýningu sem ferming er, finnst mér einmitt mjög vandræðalegt að fara í fermingarveislur. Sem betur fer er ekki enn ætlast til að ég gefi sjálfstæða gjöf þar sem ég er enn gjaldgeng undir mömmu og pabba framlagi. Það versta finnst mér þegar ég þarf að hitta fermingarbarnið og búist er við því að ég óski því til hamingju. Í þrjósku minni get ég ekki brosað og óska þeim til hamingju með eitthvað sem mér finnst ekki vera neitt. Í staðinn reyni ég að brosa og heilsa þeim kurteisislega og læt það nægja.
Þannig að þá vitiði það. Ef þið sem lesið þetta munið ferma ykkar börn og langar til að bjóða mér er það velkomið. Get svo sem alveg gúffað í mig kranskaköku og kaffi ef því er að skipta. Vildi bara vara ykkur við að ég mun ekki láta þröngva mig til þess að gefa himinháa peningaupphæð. Ég held ég muni frekar gefa eitthvað kristilegt eins og t.d. Biblíu því ef að börnin eru að fermast á réttum forsendum ætti það auðvitað að vera hin fullkomna gjöf.
Athugasemdir
Ja,tú segir nokkud Tobba litla
Frída frænka (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 09:50
Ég gef sálmabækur eða biblíur þegar kemur að trúarlegum athöfnum, skírn, brúðkaup eða ferming, enda óþarfi að gera þessa hluti í kirkju nema maður sé að því á trúarlegum forsendum.
Annars held ég að ferming þín sé ekki lögleg ef satt skal segja. Mig minnir að börn megi ekki fermast lögum samkvæmt, nema þau séu fullra 14 ára, nema ef biskup veitir sérstaka undanþágu
Björn I (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 09:50
Ég fékk samt hálfgert sjokk hérna um daginn því í Danmörku þarf maður að halda tvær "fermingarveislur". Skírnarveislan þarf nefnilega að vera alveg jafn stór og fín og fermingarveislan. Ég var satt að segja dauðhneyksluð á flottheitunum og tókst líklega að móðga tengdafjölskylduna pínu hehe. Danir eru rosalegir þegar kemur að veisluhöldum, það þarf allt að vera eftir kúnstarinnar reglu og eins fínt og hægt er að hugsa sér, ekki það að 3 mánaða gamla barnið muni eftir neinu frá þessu. Ég myndi til dæmis ekki vilja eyða stórum upphæðum í svona boring veislu heldur myndi ég nota peningana til að gera eitthvað með barninu mínu eða búa til reikning þannig að börnin mín þurfi ekki að lifa á námslánum þegar þar að kemur.
Kristrún (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 11:43
Björn I, ég er kannski svona rugluð en finnst eins og maður sé 13 að verða 14´þegar maður fermist. En hvað veit ég heiðinginn
ég sjálf (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 12:24
hver er annars þessi Björn I...
ég sjálf (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 12:26
Kristrún, ekki einu reyna að láta mig byrja á skírnarruglinu þá tekst mér eflaust að móðga 95% lesenda
Anna Þorbjörg Jónasdóttir, 24.5.2007 kl. 12:33
Eg myndi ekki modgast, eg myndi segja afram Anna! En eg hef reyndar aldrei komist i tæri vid vigt vatn
Solrun (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 15:15
Halló Bjørn,tad fer audvitad eftir hvenær á árinu tú ert fædd(ur).Tad eru ekki allir sem eiga fædingardag fyrri parts árs.Ég var bara 13 ára smástelpa er ég fermdist og turfti ekkert leyfi frá biskup
Frida frænka (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 16:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.