Færsluflokkur: Bloggar

Millar og millur

Ég er kannski vond en mér finnst ótrúlega gaman að fylgjast með hlutabréfum falla í verði og millana tapa millum.  Reyndar svo sem dropi í hafið fyrir þá flesta en skemmtilegt engu að síður.  Og það sem eru að koma jól, æ æ.

Gleði

Finnst ég þurfa að taka það fram að ég er stundum glöð og hress og ekki pirruð.  Bara svona til að fólk hætti ekki að vilja vera vinir mínir.


Bílapirr

bíll2Nú hef ég haft hemil á mér í nokkurn tíma að tala illa um bíla og núna ætla ég að leyfa mér þann unað að rakka niður fyrirbærið.

Litla systir mín hefur nú búið á mínu bíllausa heimili í nokkra mánuði og einungis notast við hjól til að komast til vinnu.  Hún hefur því smitast af hatri mínu gagnvart einkabílum.  Ég held að það myndi stórlega minnka áhuga fólks að skaffa sér bíl ef það hefði verið án þeirra í lengri tíma og séð "utan frá" hversu pirrandi þetta ökutæki er fyrir þá sem ekki sitja inn í þeim.

1. Bílstjórar sem leggur upp á gangstétt.  Það er óþolandi þegar maður er kominn á gott span að þurfa að hægja á ferðinni, jafnvel stoppa, til að komast fram hjá bíl sem lagt er upp á miðja gangstétt.  Hef stundum hugsað út í að leggjast út á miðja umferðargötu svo að bílstjórar þurfi að mjaka sér á snigilhraða fram hjá mér, jafnvel stelast upp á gangstétt.  Verst er hvað slíkar aðgerðir hefðu í för með sér mikil óþægindi fyrir mig sjálfa svo ekki talað sé um að ég væri að fórna lífi mínu og limum fyrir málstaðinn.

2.  Mengunin.  Auðvitað það sem gerir mig mest andvíga bílunum.  Ég er það heppin að hjóla um Miðbæ og Vesturbæ á leið í mínu vinnu þar sem hægt er að þræða fáfarnar götur og verða því ekki það mikið vör við viðbjóðinn.  Grey systir sem vinnur upp í Kringlu þarf að hjóla Miklubraut og bíða svo á völundarhúsgatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.  Hún segist finna mjög mikið fyrir því að hún er anda að sér miður heilsusamlegum gufum.  Það versta er að þeir sem valda menguninni sitja í loftræstri bifreið sinni og verða ekki varir við neitt.  Svo er fólk endalaust tuðandi yfir óbeinum reykingum sem þó hafa verri áhrif á þann sem neytir heldur en þann sem saklaus stendur hjá.

3. Bílstjórar sem stoppa ekki á gangbraut.  Þegar kalt er og/eða rigning stendur maður oft og bíður á meðan bílarnir þjóta fram hjá án þess að gefa manni nokkurn gaum á meðan maður blotnar meira og meira.  Sömuleiðis þegar eru svona götuljós þar sem maður þarf að ýta á takkann til að komast yfir og þegar maður er kominn miðja leið kemur gult blikkandi ljós hjá bílunum og þeir taka af stað.  Þá er maður orðinn fastur á miðri götu eins og fífl með engan takka til að ýta á heldur verður að bíða eftir næsta gangandi vegfaranda til að bjarga manni úr þessari sjálfheldu.  Afar vandræðalegar aðstæður!

Held að komið sé nóg í bili, á eflaust eftir að finna eitthvað meira með lækkandi sól og auknum pirringi.  En það er dásamlegt að hafa einhvern til að deila með pirringnum og hafa bandamann í systur minni. 


Stupid piece of crap

Þeir sem mig þekkja vita að ég er ekki mikill neyslufíkill eða sérstaklega æst yfir veraldlegum hlutum (eða er það ég lifandi í sjálfsblekkingu?).  Ég ætla þó ekki að þræta fyrir það að mér þyki skemmtilegt að versla mér fataleppa annað slagið. 

Þess vegna get ég ekki annað en að fyllst viðurstyggð á þeim verslunum sem eru að opna hér hver af annarri sem selja dót fyrir börn.  Viðurstyggðin blossar upp þegar ég sé raðir fólks fyrir utan þessar búðir, allir æstir í að kaupa ódýrt drasl.  Mér þykir fólk svo heimskt að taka þátt í þessu að ég skammast mín oft að tilheyra sömu dýrategund.  Það sama gerist þegar ég horfi stundum á innlit útlit, sé lúxusbílaauglýsingar og þar fram eftir götunum.

Þess vegna verð ég að viðurkenna að mér hefði þótt Spaugstofan fyndin á laugardaginn, bara ef það væri ekki fyrir algjöra þrjósku að finnast Spaugstofan ömurlegt sjónvarpsefni.  Hugmyndin var góð en þeir óþolandi.  Þeir sem höfðu eitthvað betra að gera á laugardagskvöldið en að horfa á miðaldra karla klæða sig í skrípabúninga þá voru dótaglaðir Íslendingar teknir fyrir. 

En vá hvað ég verð leiðinleg mamma, börnin mín munu sko ekki fá neitt dót, alla vega verð ég að fá að ritskoða það áður.  Ekki vil ég gera börnin mín að neysluþrælum eins og meirihluti þessarar guðsvoluðu þjóðar er orðinn.


Davíð og kívíin

davíðkivSá framan á Séð og heyrt að Davíð Oddsson hafi losnað við fjölda kílóa með því að vera á kívíkúrnum.  Nú liggur mér forvitni á að vita hvort Davíð Oddsson sé algjörlega búinn að missa það og hafi rætt við fréttamann snepilsins um ágæti kívíkúrsins.  Eða þá að sést hafi ítrekað til Davíðs gúffandi í sig kívíum og að hann hafi grennst mikið upp á síðkastið og dregin hafi verið sú ályktun að hann hafi losnað við mörina með hjálp kívíávaxtarins. 

 Ætli ég verði ekki bara að kaupa mér Séð og heyrt til að komast að botni þessa æsispennandi máls.


Hamingja

þþAf einhverjum ástæðum datt Þorgrími Þráinssyni að skrifa bók um hvernig karlar geta gert konur sínar hamingjusamar.  Ekki þarf ég nú að skrifa bók um efnið til að komast að þeirri niðurstöðu að besta ráðið til að gera konu hamingjusama er að vera ekki eins og Þorgrímur Þráinsson.  Alla vega væri ég afar óhamingjusöm kona ef ég væri með eitthvert Þorgríms Þráinssonar líki mér við hlið.

Drasl

Tengsl fólks við veraldlega hluti eru afar mismunandi.  Sumir bindast dauðum hlutum engum sérstökum böndum á meðan aðrir taka ástfóstri við þá.  Ég verð víst að viðurkenna að ég tilheyri seinni hópnum.  Það þykir mér ekkert sérstaklega gott en það er staðreynd engu að síður.  Að henda dóti er fyrir mér mikið átak.  Ég veit ekki hversu oft ég hef hent einhverju í ruslið og síðan sótt það aftur eftir smá umhugsun.  Man sérstaklega eftir sjúskuðu náttbuxunum sem ég dró aftur upp úr ruslapokanum þegar ég var við það að henda honum í ruslagáminn uppi á Gámaþjónustu.  Hef reyndar aldrei farið í þær ágætu buxur eftir það og veit í raun ekki hvar þær eru, en mér líður alla vega betur að hafa bjargað þeim frá köldum ruslahaugnum. 

Þegar ég var lítil var ég heltekinn af söfnunaráráttu.  Ég held að ég hafi safnað nánast öllu sem hægt var.  Ópalpakkar, minnisblöð, tappar af smartiespökkum, spil, servéttur, alls kyns sælgætisbréf var t.d. það sem ég sankaði að mér.  Þetta hefur valdið móður minni hugarangri í gegnum tíðina, enda er hún einstaklega dugleg við það að henda (eins og t.d. öllu plötusafninu hans pabba, sem hann grætur enn rúmum 20 árum síðar).  Þannig notfærði hún sér þann tíma þegar ég var í sunnudagaskólanum (ó já, þangað fór ég á hverjum sunnudegi í fjölda ára) til að fara inn í herbergið mitt með svartan ruslapoka og lét greypar sópa.  Þessu tók ég þó aldrei eftir heldur komst að því þegar mér var sagt frá þessu mörgum árum síðar. 

Þið getið því rétt ímyndað ykkur gleði móður minnar þegar ég loks eignaðist mitt eigið húsnæði og hún gat sent mér alla pappakassana sem voru til heima, fullir af draslinu mínu.  Nú hef ég allt dótið mitt hjá mér og get safnað að vild án þess að eiga á hættu að því verði fleygt í einhverri tiltektinni.

Mér varð hugsað til þessa þar sem ég er með tiltektaræði í vinnunni og hendi öllu sem ég finn, svona nánast.  Veit ekki hví mér er það svona auðvelt á meðan mér finnst ég vera að rífa úr mér hjartað þegar ég sé mig tilneydda til að losa mig við styttu sem ég fékk í 8 ára afmælisgjöf.


Scam

Helgin sem leið var um margt ólík öðrum helgum hjá mér.  Fór á sinfóníutónleika á föstudagskvöldið (mínir jómfrúarsinfóníutónleikar) og hlýddi á Vorblótið eftir Stravinski.  Fannst það bara ansi hressandi og skemmtilegt þrátt fyrir lítinn áhuga á klassískri tónlist.  Enda áttu þessir tónleikar að höfða til unga fólksins og því nóg um læti og hávaða og tónleikarnir ekki sérstaklega langir.  Aldrei að vita nema maður prófi aftur svona tónleika og þá á fimmtudagskvöldi með heldri borgurunum og fari þá í pelsinum svona til að fitta inn í hópinn.

Á laugardagskvöldið fór ég í Sjónvarpssal og fylgdist með Laugardagslögunum, (sást þó aldrei í sjónvarpinu :( ).  Ekki það að ég sé sérlegur aðdáandi þessara þátta eða neitt þannig en það var þó skemmtilegt að sjá þetta svona læf.  Gunni frændi átti þarna auðvitað besta lagið en Eurotrashið hafði þó betur.  En þar sem við sátum þarna urðum við vitni að miklu "scami".  Eins og þeir vita sem fylgst hafa með þá eru það áhorfendur sem kjósa lag sem kemst áfram í gegnum símakosningar.  Fyrir hvert atkvæði borgar fólk 100 kall.  Mikið er gert úr því í sjónvarpssal og talið niður hvenær kosningunni lýkur og fólk hvatt til að halda áfram að kjósa fram á síðustu mínútu því það sé svo mjótt á munum.  Í raun er það þó þannig að úrslitin eru löngu ráðin og þau atkvæði sem berast 10 mínútum áður en símakosningunni formlegar lýkur hafa engin áhrif.  Umslagið með úrslitunum er löngu komið í salinn og því er það fólk sem er að hringja eftir það að fleygja 100 köllunum sínum beint í Símann.  Fussum svei segi ég nú bara.  Eins gott að ég á aldrei nóga inneign til að hringja svona símtöl, því þá yrði ég nú fyrst brjáluð!


Raus

Helgin löngu liðin en hún var góð.  Byrjaði á kokteilboði Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á Kjarvalsstöðum þar sem maður reyndi að vera kúltiveraður og sötra létt á veigunum.  Eitthvað fór það mis og endaði með að ég bauð öllum vinnufélögunum í partí í litlu íbúðina mína.  Þótti það sérlega góð hugmynd þá en ekki svo mjög daginn eftir þegar þrifin tóku við. 

Skundaði svo á Skólavörðustíginn á laugardaginn er ég frétti af ókeypis kjötsúpu þar.  Kjamsaði á súpunni sem bragðaðist stór vel enda er kjötsúpa besti matur í heimi.  Anorexíu stelpan úr heimildamyndinni sem var á Rúv um daginn var í súpuröðinni fyrir aftan mig.  Fylgdist vel með til að athuga hvort hún myndi borða eitthvað, sem hún gerði.  Aumingja stelpan, allir voða spenntir að sjá hvort hún borði eða ekki.

Kaffiboð hjá kólumbískri stúlku á sunnudaginn þar sem ég lærði nokkur spænsk orð en er búin að gleyma þeim aftur.  Merkilegt hvað heilinn er orðið lélegt mauk með aldrinum og móttekur ekki neitt.  Þar sem stelpan kann ekki neina íslensku reyndi ég eitthvað að stauta mig áfram á þeirri litlu frönsku sem ég lærði eitt sinn en einhvern veginn endaði það alltaf á að ég fór að nota sænsk orð.  Hún skildi mig ekki. 

Nóg í bili af tilgangslausu rausi.


Negrastrákarnir (finnst jafnvel erfitt að skrifa þetta orð!)

negrastrNú hefur verið endurútgefin bókin Tíu litlir negrastrákar eins og hefur e.t.v. ekki farið fram hjá mörgum sem hafa aðgang að íslenskum fréttum.  Ástæðan fyrir endurútgáfunni er að þessi bók á að heita menningarverðmæti sökum myndskreitinga hennar.  Ekki ætla ég nú að efa það að myndirnar séu vel unnar en engu að síður er ég afar hneiksluð á þessari útgáfu.  Ég stóð í þeirri trú að orðið negri væri eitthvað sem almenn sátt ríkti um að nota ekki.  Veit ekki betur en að negrakossar séu ekki lengur til því ósmekklegt þótti orðið.  Því finnst mér sérlega merkilegt að gefin sé út bók árið 2007 þar sem talað er um negra og ekki nóg með það heldur eru þeir hver öðrum heimskari.  Þar sem börn eru einföld grey er líklegt að þau fari að kalla svörtu krakkana á leikskólanum sínum negra og álíta þá jafnvel heimskari en hina krakkana, svona eins og negrastrákarnir í bókinni. 

Það merkilega finnst mér þó að bókaútgáfan er voðalega hissa á neikvæðum viðbrögðum fólks í garð þessarar augljóslega rasísku bókar.

Annars er ég svo sem ekkert sérlega viðkvæm fyrir ákveðnum orðum.  Ég nota orðið svertingi enda finnst mér ekki niðrandi að vera kölluð hvítingi sem ég er og svo segi ég líka þroskaheftur sem þykir eflaust ekki fínt.  Ég er ekkert hrifin af algjörri ritskoðun í málnotkun en tel nú þó að augljóst sé að negri sé eitthvað sem ekki ætti að nota, hvað þá í barnabókum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband