Færsluflokkur: Bloggar
Bloggar | 13.12.2007 | 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Það virðist vera endalaust óveður, allar nætur er stormur í Reykjavík, svo mikill að maður getur varla sofið. Ég sef undir glugga og ímynda ég mér alltaf að hann brotni og glerbrotum rigni yfir mig.
Man þegar ég var lítil, þá fannst mér ótrúlega gaman þegar það var brjálað rok. Enda var áhyggjustigið mun lægra á yngri árum. Þá fór ég út, renndi niður úlpunni og lyfti upp fyrir haus. Svo fauk ég þannig um hverfið og vonaði að ekki yrði bíll að vegi mínum. Einhvern veginn var allt sem manni þykir miður nú til dags, skemmtilegt þegar maður var lítill. Þetta var kannski aðallega tengt veðri. Því verra veður því betra, því að vonta veður gat þýtt frí í skólanum.
Þegar það var mígandi rigning var gaman að fara og hoppa í pollum og svo bjarga ánamöðkunum sem höfðu reynt að forða sér úr flóðinu í jörðinni. Núna finnst mér rigning óþolandi fyrirbæri sem gerir ekkert nema að skapa pirring. Skemmtilegast var þegar allt var á kafi í snjó, þá var allt svo gaman og hægt að gera svo mikið. Þó mér þyki snjór yndislegur fer maður þó ósjálfrátt að hugsa um praktísk atriði, eins og hvað það er erfitt að komast leiða sinna og að það er leiðinlegt að moka. Hálkan var líka hressandi því það var svo gaman að skauta um göturnar á sleipu moonbootsunum. Nú gengur maður um eins og spýtukall, skíthræddur við að detta og gera sig að fífli. Svo þótti mér það líka sérstaklega skemmtilegt að lenda í ókyrrð í flugi, það var eins og að vera í tívolíi. Núna fæ ég móðursýkiskast við slíkar aðstæður.
Ohhh, af hverju þarf maður að verða fullorðinn og fúll?
Bloggar | 13.12.2007 | 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hlaut að koma að því. Vitnað í bloggið mitt í blöðunum. Verst að þeir tóku bút sem var hvorki sniðugur, hnyttinn né gáfulegur bara eitthvað leiðindatuð. Skil ekki alveg hvernig þeir vinsa úr þessum bloggum og klessa inn í blöðin, hlýtur alla vega ekki að vera skemmtilegt starf að fara í gegnum þetta rusl.
Fékk mér nagladekk undir hjólið um helgina og spæni nú upp malbikinu og bý til svifryk eins og allir hinir. Held samt að rassinn á mér sé ekki það þungur að hann muni hjálpa mikið til að drepa hina hjólandi og gangandi úr mengun. Bílstjórarnir verða víst að sjá um það sjálfir og standa sig alveg stórvel. Finnst ég ótrúlega töff með negld dekk undir sænska kvenhjólinu mínu með körfunni. Það einhvern veginn er frekar absúrd á að líta. En töff er það.
Bloggar | 10.12.2007 | 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég fór loksins í gær og gaf blóð. Finnst ég ógeðslega dugleg enda ekkert voðalega spennt fyrir sprautum, hvað þá óvenjulega þykkum eins og þeim sem notaðar eru til blóðtöku. Var líka voða glöð að ég er ekki með of háan blóðþrýsting, það hefur bara verið eitthvað tilfallandi þarna síðast. Hjúkk, enda afar ótöff að þurfa á passa þrýstinginn fyrir þrítugt. Svo fékk ég fullt af veitingum og sparaði því kvöldmatinn þann daginn. Sem sé lítið mál að láta tappa af sér eins og hálfum líter af blóði.
Eins og ég reyndar vissi þá er ég í O+. Það finnst mér ekkert flott enda allt of margir í þeim flokki. Bæði stóra systir og litli bróðir eru í O-. Það þykir mér öfundsvert, enda eftirsóttasti blóðflokkurinn. Ég er ekkert sérstaklega hrifin af því að vera venjuleg. Er annars voðalega venjuleg á flestan hátt; í nokkurn veginn meðalhæð, meðalþyngd, nota algengustu stærð af skóm, með skollitað hár og blá/grá augu. Eins gott að ég er örvhent, bjargar mér aðeins frá meðalmennskunni.
Góða helgi allir
Bloggar | 7.12.2007 | 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í gærkvöldi fór ég í Smáralind með litlu systur minni sem starfsmaður búðar sem er í eigu Haga (Baugs) en hún fékk boð um að koma og versla í öllum verslunum Haga í Smáralind á 20% afslætti. Þetta gera þeir til að láta starfsfólki sínu ekki líða jafn skítlega með það að fá smánarleg laun fyrir sína vinnu. Sniðugir þar!
Alla vega féllum við í þá gildru og þustum upp í Kópavog til að geta "grætt" heljarinnar ósköp. Þarna var fólk með fullar innkaupakörfur af alls kyns dóteríi sem það vantaði eflaust sárlega nú eða bara varð að kaupa þar sem það fékk alveg 20% afslátt.
En það sem skemmtilegasta var en jafnframt það sorglegasta var að inn á milli rekkana í Hagkaupum mátti heyra óm af gítarspili og söngli en þar var sjálf fyrrum vonarstjarna Íslendinga, Magni sjálfur á einhverjum smá stalli að spila fyrir eins og 4 börn eða svo á meðan fullorðna fólkið veitti honum enga athygli í innkauparússi. Þarna var hann, Rokkstjarnan, sem skildi við eiginkonu sína og barn þar sem frægðin hafði breytt honun svo mikið. Hann er það frægur að hann fær að spila á Hagakvöldi í Hagkaupum með nokkra krakka sem áhorfendur. Hræðilega sorglegt eitthvað en þó svo fyndið. Ætli hann hafi fengið borgað fyrir giggið með 20% afslætti Hagabúðum?
Bloggar | 5.12.2007 | 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sá þess fyrirsögn útundan mér á mbl. Varð í sekúndubrot afar spennt yfir því að það væri hægt að affermast sem sé að afturkalla loforðið um að hafa Jesú fyrir leiðtoga lífs síns. Sá fyrir mér á þessu sekúndubroti heljarinnar athöfn við þetta, fara með trúarjátninguna afturábak, skila ættingjunum aftur gjöfunum, borga pabba og mömmu veisluna, rífa sálmabókina niður í öreindir og fleira stuð.
Verst að það var bara verið að tala um eitthvað skip sem þurfti að taka farminn af.
Bloggar | 29.11.2007 | 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég var að fá atvinnutilboð í Svíþjóð við það að prófarkalesa danskar heimasíður. Merkilegt að þeir bjóði Íslendingi svoleiðis djobb. Eru engir Danir í Svíþjóð. Er sem sé enn á skrá greinilega hjá atvinnumiðlun í Stokkhólmi og þar skrifaði ég að ég væri álíka góð í dönsku og sænsku og var alls ekki að halda fram að ég væri fullkomin í sænsku. Sá starfið auglýst í fjöldameili sem er sent á alla á skrá en slíkum e-meilum eyði ég jafnóðum. Í dag skrifaði mér svo persónulega konan sem er að leita að manneskju í þetta starf og nánast grátbað mig um að koma til starfa. Þess má geta að ég prófarkarlas ritgerð í dönsku í MA fyrir litla bróður minn í vor og hann fékk bara 7 hjá henni Ragnheiði gömlu. Prófarkarlestur á dönsku kannski ekki alveg mín hilla í lífinu.
Bloggar | 29.11.2007 | 10:48 (breytt kl. 11:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég þoli ekki staðhæfingar um eiginleika kynjana. Leikrit eins og Hellisbúinn, bækur eins og þarna að konur séu frá Venus og karlar frá Mars og nú síðast karlaherbergi í Hagkaupum. Það er gengið að því vísu að öllum konum finnist geðveikislega skemmtilegt að versla og allir karlar hati það eins og pláguna. Í þessu tiltekna herbergi geta kallagreyin slappað af og spilað Playstation eða horft á fótbolta því það þykir öllum köllum skemmtilegt. Í frétt á mbl er vitnað í einhvern sáttan karl sem segist bara vilja fá bjór í herbergið, þá verði allt fullkomið.
Ef lífið væri nú svona einfalt; konur eru glaðar þegar þær fá að versla og karlar vita ekkert betra en að horfa á fótbolta og drekka bjór.
Bloggar | 29.11.2007 | 09:12 (breytt kl. 11:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Já, Ísland komið í efsta sæti lista S.Þ. um lífskjör. Jibbí! Skrítið samt hvað margir eru hér óhamingjusamir, þunglyndir, kvíðnir, með minnimáttarkennd og fullir vonleysis í þessu frábæra landi. Getur verið að það sé ekki jákvætt samband á milli þess að vera ríkur og hamingjusamur? En það virðist nú varla mega benda á það að peningar færi ekki hamingju, það þykjar hér helgispjöll að leggja sér slíkt orðbragð til munns.
Nóa Siríus ætti að búa til nýjan málshátt í páskaeggin sem flestir Íslendingar myndu kinka sáttir kolli við að fá í sínu eggi; Vertu ríkur, annars er lífið ömurlegt.
Bloggar | 28.11.2007 | 09:17 (breytt kl. 09:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nú finnst mér margir rita og ræða um dónalegt starfsfólk og að fólki skuli dirfast að vera ekki þjónustulundin uppmáluð alla daga, allan daginn, alltaf, því það fái nú fyrir það borgað.
Ég ætla hins vegar að kvarta yfir dónalegum kúnnum. Nú er ég ekki að fara að tala um hvað fólk er leiðinlegt við mig persónulega í minni vinnu enda kannski ekki hefðbundið þjónustustarf. En ég ætla að tala um fólkið sem mig langar að sparka í þegar ég er fyrir aftan það í röð á kassa í Bónus eða sit hliðina á því á kaffihúsi.
Mér finnst stundum að fólk sé að misskilja þjónustu. Mér finnst sumir tala um þjónustufólk eins og það sé fætt eingöngu til að þjóna því og það með bros á vör sama hvernig framkoma þess sjálfs er. Sumir virðast ætlast til þess að þjónustufólk séu einhvers konar übermensch sem hafa engar tilfinningar, alla vega hafa fullkominn hæfileika í að fela þær, og auðvitað að brosa. Nú er ég ekki að segja að ég sé svakalega spennt fyrir fúlu afgreiðslufólki heldur býst ég aðeins við að fólk sé kurteist við mig, ef ég er kurteis á móti. Mér finnst ekki sjálfsagt mál að afgreiðslufólk sé súperhresst við manneskju sem býður þeim ekki góðan daginn eða þakkar fyrir sig. Slíku fólki má alveg svara með skeifu. Að ætlast til að starfsfólk í þjónustugeiranum eigi alltaf að vera ofurkurteist, jafnvel þó kúnninn sýni þér ekkert nema dónaskap.
Þess má geta að ég er (finnst mér alla vega) mjög kurteis við afgreiðslufólk og fæ því oftast ekki fýlusvip og leiðindi til baka. Veit ekki af hverju ég fór að hugsa um þetta, kannski af því ég var í Bónus og í gær og þar eru allir með fýlusvip, bæði kúnnar og kassafólk, og það finnst mér ekki skemmtilegt. Mér finnst alla vega að við sem erum að koma að utan gætum aðstoðað við það að gera andrúmsloftið aðeins hressara með því a.m.k. ekki kæfa allt með fýlu. Sem sé, allir að vera hressir í Bónus og vera góð við afgreiðslufólkið!
Bloggar | 27.11.2007 | 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)