Færsluflokkur: Bloggar

Alvöru lýðræði

Orðið lýðræði hefur mikið verið rætt í ljósi atburða liðinnar viku.  Ég hélt að flestallir væru með það nokkurn veginn á hreinu hvað það hugtak fæli í sér.  Þar skjátlaðist mér hrapalega.  Svo virðist sem að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og þessi eini í Frjálslyndaflokknum í borginni virðist halda að lýðræði nái einungis yfir kosningar á fjögurra ára fresti og þess á milli eigi lýðurinn ekki að trufla sína kjörnu fulltrúa heldur leyfa þeim að gera sem þeim sýnist enda með umboð fólksins sem kaus þá. 

Mikið tala vestrænir spekingar um gæði lýðræðis framyfir annars konar stjórnarfar því að í lýðræði fá allir að tjá sig því þar ríkir málfrelsi.  Svo virðist mér þó að fyrir meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur nái málfrelsið þó aðeins svo langt að það trufli ekki starf þeirra.  Fólk má segja það sem það vill svo lengi sem það nær ekki eyrum þeirra.  Það má skrifa greinar um óánægju sína, blogga um hana, skrifa á undirskriftalista og jafnvel koma fram í sjónvarpsþáttum.  Hins vegar þegar fólk nennir að gera eitthvað aðeins róttækara svo að eftir því sé í alvörunni tekið er það kallað brot á lýðræðinu, skrílslæti og fíflaháttur.  Þetta þykir mér dálítið merkilegt þar sem ég gladdist voðalega að fólk nennti að leggja örlítið meira á sig en venjulega til að láta í ljós óánægju sína og mæta í ráðhúsið og mótmæla.  Ég gat ekki lesið annað í þessa gjörð nema að þarna væri lýðræðið í sinni hreinustu mynd.

Einnig fer það í taugarnar á mér þegar fólk talar um mótmælendur eins og þeir séu krakkafífl sem enga mótaða skoðun hafa.  Satt er það að ungt fólk tekur oftar þátt í mótmælum en þeir sem eldri eru.  Ástæðurnar fyrir því eru auðvitað margskonar en augljósastar e.t.v. að ungu fólki er oft heitara í hamsi þegar kemur að pólitík en öðrum.  Þannig var það alla vega um mig.  Ungt fólk er ekki enn búið að missa alla trú á að hægt sé að hafa áhrif eins og þeir sem eldri eru sem hafa upplifað vonbrigðin um áhrifaleysi aftur og aftur.  Sömuleiðis eru miklir fordómar gagnvart mótmælendum á Íslandi.  Mótmælendur eru subbulegir og treggáfaðir hippar sem vilja bara koma af stað látum, látanna vegna.  Flestum þykir eilítið vandræðalegt að sjá fullorðið fólk (þetta eru jú fullorðnir þó ungir séu) garga rauðir í framan og steyta hnefann.  Ég viðurkenni að mér finnst það líka svolítið óþægilegt og hef ég nú tekið þátt í nokkrum mótmælum sjálf.

Það gladdi mitt litla flensuhjarta á fimmtudaginn að sjá myndir frá Ráðhúsinu þar sem fólk þorði að láta í sér heyra í stað þess að skrifa bara enn eina bloggfærsluna um skrípaleikinn sem hefur átt sér stað þarna við tjörnina upp á síðkastið. 

...segir bloggarinn ég!


Fataverslun Framsóknarflokksins

fataverslunAlltaf gaman að góðu glensi

Borgarstjórnarskipti part III

Ég á ekki til orð yfir þessu rugli í ráðhúsinu.  Maður skiptir um yfirmenn ansi ört þessa dagana.  Við sem vorum búin að bjóða Degi í heimsókn hingað í vinnuna en nú verður ekkert af því.  Kemur bara einhver gamall kall í staðinn.  Vond skipti það.  En hvað er með þessa lækna sem vilja alltaf verða borgarstjórar?  Vissi ekki að læknanám væri góður undirbúningur fyrir borgarstjórastörf, fór greinilega í rangt nám til að öðlast völd.  Ekki það að ég sé sérlega valdasjúk kona, en hver veit nema valdasýkin aukist með árunum.

Hér á mínum vinnustað hafa þessi tíðu borgarstjórnarskipti nokkuð bagaleg áhrif.  Nýbúið að ákveða einhver verkefni og koma af stað sem eru svo afturkölluð þegar enn einn borgarstjórinn tekur við.  En djöful hlýtur að vera góð stemning í borgarstjórn núna, allir svíkjandi hvern annan hægri vinstri.  Sannkallaður Guiding Light fílingur í gangi.


Bobby yfir móðuna miklu

Og Bobby bara dáinn.  Það þykja mér vondar fréttir.  Þurfum að redda einhverju öðrum frægum ríkisfang sem snöggvast.  Ég sting upp á Britney, fínt fyrir hana að komast aðeins í burtu.

Skrítin forgangsröðun fréttamanna

Er virkilega ekkert að gerast í heiminum sem er mikilvægara að fjalla um í fréttatímum heldur en spillingarleg ráðning Davíðs Oddssonar jr?  Ekki það að mér þyki þetta sérlega eðlileg ráðning en ég er orðin langþreytt að sjá smettið á manninum í hverjum einasta fréttatíma.

Ég hef heyrt af því fregnir að í útlöndum logi allt í stríðum en svo virðist sem það þyki ekki fréttaefni á Íslandi.  En það er náttúrulega smámál svona í samanburði við það hver verður dómari í Héraðsdómi Norðurlands Eystri.


Áramótapistill (aðeins of seint)

Betra er seint en aldrei, að rifja upp síðastliðið ár.  Nokkrar breytingar áttu sér stað á högum mínum og á heildina litið var 2007 gott ár þó auðvitað vona ég að 2008 verði betra.  Græðgin endalaus, alltaf vill maður meira, betra og stærra.

Upis heimsókn 008Fyrsta mánuð ársins var ég í Svíþjóð og vann hjá kapitalíska risanum Samsung.  Ferðaðist á hverjum degi klukkustund til að komast í vinnu og eyddi svo vinnudeginum í að færa inn pantanir kaupóðra Dana.  Þrjú af bekkjarsystkinum okkar í Uppsala komu frá sínum nýju heimalöndum í heimsókn til okkar Aysu.  Rifjuðum við upp gamla tíma og skemmtum okkur stórvel.  Í seinni hluta mánaðar fengum við sambýlingar þær fréttir að við værum að missa íbúðina okkar og þyrftum að flytja út hið fyrsta.  Ég í panikk og eftir að hafa skoðað okraða sænska leigulista ákveð ég að flytja heim.

Lok jan og febrúar 002Svo flutti ég með mitt hafurtask enn eina ferðina í foreldrahús á Akureyri.  Hafði stórar hugmyndir um að finna góða vinnu á Akureyri, fá fullt af peningum og búa frítt hjá pabba og mömmu.  Ekki varð sú þó raunin.  Enginn virtist vilja ráða mig með mínar fínu gráður.  Fór því skömmustuleg niður á Vinnumálastofnun og skráði mig atvinnulausa.  Framtíðin var ekki björt, orðin atvinnulaus aumingi í foreldrahúsum.

Tónleikar og Kjarnaskógur 007Dagarnir siluðust áfram í eymd og volæði.  Þó í rauninni ekki, var farin að njóta þess að sofa lengi, fara í sund og göngutúra og horfa á sjónvarpið og fá góðan mömmumat.  Ekki erfitt að venjast svoleiðis lífi og kannski hættulega þægilegt. 

Apríl 050Hápunktur mánaðarins var að fá páskaegg frá pabba og mömmu eins og hin litlu börnin.  Mamma var greinilega orðin eitthvað leið á að hafa mig hangandi heima svo hún reddaði mér vinnu á sjúkrahúsinu til bráðabirgða.  Þangað snéri ég eina ferðina enn eftir að hafa byrjað sjúkrahúsferil minn sem starfstúlka sumarið 1996 og verið þar nánast síðan á sumrum. 

Aysu heimsókn 069Gafst upp á að finna vinnu á Akureyri og reddaði mér einni slíkri í Reykjavík.  Flutti þangað og byrjaði að vinna í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar og er þar enn.  Aysu kom í heimsókn og reyndi ég að vera góður gestgjafi og dró hana á Mývatn, á hestbak, á barinn, í sund o. fl.  Held ég hafi staðið mig ágætlega og finnst henni Ísland best í heimi.

Austurvöllur 026Júní fór mest í að hanga á Austurvelli eða Arnarhóli með góðum vinum og naut góða veðursins.  Var reyndar ekki alveg að skilja hvað allir voru að missa sig yfir þessari ,,hitabylgju" enda kannski 15° og sól ekkert stórkostlegt, en gott þó auðvitað miðað við Ísland.  Litla systir útskrifaðist úr MA, fékk alls kyns verðlaun, ég fékk minnimáttarkennd en auðvitað stollt.  Heyrði Hesta-Jóa nokkrum sinnum á útskriftinni og er strax farin að kvíða fyrir 10 ára endurfundum og þurfa að heyra það skrilljón sinnum í viðbót.

Danmörk 051Í júlí komum við vinkonur frá ýmsum heimshornum til Danmerkur til að fagna því að ein af piprunum úr MA var gengin út.  Brúðkaup Dísar og Noah var yndislegt partí (mér finnst ekki móðgandi að kalla brúðkaup partí því það er það sem þetta er).  Áttum góða daga í Danaveldi enda ekki allt of oft sem við hittumst.  Í þessum mánuði gerðist ég fullorðin og keypti mér íbúð.  Fannst ég yfirmáta dugleg að standa í þessu braski ein og óstudd. 

Kisa 050Þar sem ég var komin með fasta búsetu og orðin sjálfs míns herra, ákvað ég að láta gamlan draum rætast og eignast eigið gæludýr.  Fór á Kattholt og tók að mér munaðarlausa kisu sem fannst á vappi í Vesturbænum.  Þar sem ég vinn við það að þjónusta Vesturbæjinga lá það beint við að ég tæki munaðarleysingja þaðan.  Fór til Akureyrar um verslunarmannahelgina og fattaði að ég er orðin gömul og finnst verslunarmannahelgi leiðinleg.

Kisa 063Dagný litla systir flutti inn til mín og ég fór að arðræna hana eins og sönnum leigusala sæmir.  Hún fór að vinna í tískubúð og ég nýt góðs af og er nú alltaf í tísku, eða svona.

Airwaves 053Í október var Airwaves sem ég fór á í fyrsta skipti.  Litli bróðir kom til að vera á hátíðinni og sló gegn í Grapewine talandi um ladies og booties.  Ég var árinu eldri og því ber svo sem að fagna.

Man ekkert sérstakt í nóvember enda svo sem frekar leiðinlegur mánuður. 

viðDesember er alltaf góður mánuður því þá eru jól og þá koma allir heim.  Hittumst allar vinkonurnar sem gerist á nokkurra ára fresti.  Sigga Larsen var á Íslandi um jólin í fyrsta skipti í yfir áratug, ég fór með kött í flugvél, tók aftur upp á því að vera flughrædd, fór í partí, á Karólínu, át og drakk og hafði það allt of gott.  Var því fúl fyrstu daga nýja ársins en er orðin sátt núna. 

Áramótaheitið í ár; að vera ekki fúl og pirruð- brotið á 3ja degi ársins.  Góður árangur það!


Póker

luckyVar í stuði í gærkvöldi fyrir hugljúfa rómantíska bíómynd og hélt í Krambúðina til að ná mér í eina slíka.  Sá þar á einu hulstrinu mynd af Drew Barrymore og þar sem hún leikur varla í öðru en vellum og skellti ég mér á hana.  Lítið var þó um rómans í þessari mynd heldur þeim mun meira um pókerspil.  Ég er ekki ein þeirra sem horfi spennt á pókerkvöldin á Skjá einum enda þykir mér póker afar óskiljanlegt spil og því fannst mér ekkert spennandi er gaurinn leit á spilin og þar voru t.d. spaða átta og nía.  Á það að segja manni eitthvað eða?  Hefði allt eins getað verið á kínversku þessi mynd og það ótextuð því ekki skildi ég neitt í pókerspilinu sem tók um 90% tíma myndarinnar.  Brá á það ráð að hraðspóla yfir pókeratriðin og njóta svo þeirra þar sem rómansinn réð ríkjum.  Þetta hefði kannski verið skemmtilegra ef að það hefði verið tekið í eitthvað spil sem allir þekkja, Olsen Olsen eða eitthvað slíkt.  Nú eða fatapóker, en þá hefði myndin kannski fremur átt heima í hillum Adam og Evu en í Krambúðinni.  En það hefði alla vega verið meira spennandi á að horfa.


Eftir jólin

jól 003jól 008jól 024jól 028jól 047jól 083jól 094Ætli ég verði ekki að skrifa smá jólapistil svona fyrir Maju frænku alla vega.  Jólin voru góð að vanda og held ég að ég verði að taka undir með Eiríki Hauks þegar hann syngur svo mynduglega að vilja hafa jól alla daga.  Allir vinirnir sem búa í útlöndum streymdu til landsins þannig að það var varla gert annað en að hafa endurfundaboð.  Ég sem geri venjulega ekki neitt annað en að glápa á sjónvarp í frístundum, tók upp á því að fara á snjóþotu, greip í spil og fór í heimsóknir og auðvitað nokkrum sinnum á barinn.  Og, jú, horfði á sjónvarp.

Það hræðilegasta við jólin var að þurfa að troða kettinum í búr og setja hann í farangursgeymsluna í flugvélinni á leiðinni norður.  Fékk nokkur móðursýkisköst í því ferli að þurfa að senda lifandi dýr (en slíkum límmiða var einmitt klesst á búrið) sömu leið og töskuna mína.  Helvítis fólk með ofnæmi eru líklega valdurinn af slíkri dýrapíningu.  Kötturinn komst þó heill til Akureyrar en ég þó öllu óheilli og héldum við því heim í Austurbyggð þar sem heimiliskötturinn og hundurinn þar tóku "vel" á móti okkur.  Fyrstu dagarnir fóru svo í að aðlaga dýrin að hvert öðru en þá tók við annað taugastríð í minni sál.  Hef komist að því að ég hef ekki sterkar taugar, ekki það að ég hafi staðið sérlega á þeirri meiningu áður.

Alltaf er það skemmtilegt að hitta stúlkurnar mínar aftur.  Þær búa út um allar trissur, Malaví, Bandaríkjunum, Líberíu, Noregi og Danmörku.  Það er nú ekki hægt að saka minn vinkvennahóp fyrir þröngan sjóndeildarhring.  Best væri þó (fyrir mig) ef allar væru þær á Íslandi.  Það gerist kannski einhvern tímann.

Það var svo að vanda afar leiðinlegt að halda aftur heim til Reykjavíkur.  Jólalífið er ósköp gott líf fyrir letidýr eins og mig.  Er öll að skríða saman þó ,enda styttist senn í sumaryl eða svona alla vega styttra í það en fyrir jól.  Þangað til er ég að hugsa um að glápa bara á sjónvarpið og láta tímann líða þannig.


Hversdagslífið tekið við

Hvað er meira þunglyndislegt en fyrsti vinnudagurinn eftir gott jólafrí?  Jú, kannski þegar maður uppgötvar rétt áður en maður heldur í vinnuna að maður hafi tekið að sér skúringar í afleysingum eftir að venjulegum vinnutíma lýkur. Fyrir jólinn þegar því var lofað þótti tilhugsunin um smá skúringar bara hin besta, en þegar legið er andvaka eftir jólasukkið, líkamleg pína. 

Nú er ég þó öll að koma til og bara farin að venjast tilhugsuninni að vakna klukkan 7 alla morgna og halda til vinnu en ekki bara hangsast um á náttfötunum fram yfir hádegi og bregða sér í ballföt á kvöldin og drekka bús og röfla við vini.  Skrifa kannski meira um búsið og röflið síðar.  jól 043


Raðir og Anna/Georg

Ekki veit ég hvað var verið að bjóða í Máli og menningu í morgun en alla vega eitthvað svakalega spennandi því nú klukkan 8 í morgun þegar ég hjólaði fram hjá, var þar löng röð af fólki fyrir utan.  Hvað getur mögulega verið svona spennandi að fullorðið fólk fer fyrir allar aldir til að standa úti í rigningu í röð?  Varð frekar örg á þessum vitleysishætti.

jónTalandi um það að vera örg.  Mér hefur verið bent á það af fleirum en einum að ég líkist nokkuð Georgi í Næturvaktinni.  Ég hef nú ekki séð mikið af þessum stórgóðu þáttum en veit þó að það telst ekki hrós að líkjast Georgi.  Sumum finnst ég tuða mikið, vera heldur upptekin af umhverfismálum, vera afar vinstrisinnuð og sérlega hrifin af Svíþjóð.  Svo er ég líka með einhverjar fíneríis gráður sem ég vinn ekkert með, þó ekki vinni ég á bensínstöð.  Vona alla vega að fólk hafi verið að meina að þetta séu líkindi minn við þennan mann, svona alla vega frekar en útlitið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband