Orðið lýðræði hefur mikið verið rætt í ljósi atburða liðinnar viku. Ég hélt að flestallir væru með það nokkurn veginn á hreinu hvað það hugtak fæli í sér. Þar skjátlaðist mér hrapalega. Svo virðist sem að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og þessi eini í Frjálslyndaflokknum í borginni virðist halda að lýðræði nái einungis yfir kosningar á fjögurra ára fresti og þess á milli eigi lýðurinn ekki að trufla sína kjörnu fulltrúa heldur leyfa þeim að gera sem þeim sýnist enda með umboð fólksins sem kaus þá.
Mikið tala vestrænir spekingar um gæði lýðræðis framyfir annars konar stjórnarfar því að í lýðræði fá allir að tjá sig því þar ríkir málfrelsi. Svo virðist mér þó að fyrir meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur nái málfrelsið þó aðeins svo langt að það trufli ekki starf þeirra. Fólk má segja það sem það vill svo lengi sem það nær ekki eyrum þeirra. Það má skrifa greinar um óánægju sína, blogga um hana, skrifa á undirskriftalista og jafnvel koma fram í sjónvarpsþáttum. Hins vegar þegar fólk nennir að gera eitthvað aðeins róttækara svo að eftir því sé í alvörunni tekið er það kallað brot á lýðræðinu, skrílslæti og fíflaháttur. Þetta þykir mér dálítið merkilegt þar sem ég gladdist voðalega að fólk nennti að leggja örlítið meira á sig en venjulega til að láta í ljós óánægju sína og mæta í ráðhúsið og mótmæla. Ég gat ekki lesið annað í þessa gjörð nema að þarna væri lýðræðið í sinni hreinustu mynd.
Einnig fer það í taugarnar á mér þegar fólk talar um mótmælendur eins og þeir séu krakkafífl sem enga mótaða skoðun hafa. Satt er það að ungt fólk tekur oftar þátt í mótmælum en þeir sem eldri eru. Ástæðurnar fyrir því eru auðvitað margskonar en augljósastar e.t.v. að ungu fólki er oft heitara í hamsi þegar kemur að pólitík en öðrum. Þannig var það alla vega um mig. Ungt fólk er ekki enn búið að missa alla trú á að hægt sé að hafa áhrif eins og þeir sem eldri eru sem hafa upplifað vonbrigðin um áhrifaleysi aftur og aftur. Sömuleiðis eru miklir fordómar gagnvart mótmælendum á Íslandi. Mótmælendur eru subbulegir og treggáfaðir hippar sem vilja bara koma af stað látum, látanna vegna. Flestum þykir eilítið vandræðalegt að sjá fullorðið fólk (þetta eru jú fullorðnir þó ungir séu) garga rauðir í framan og steyta hnefann. Ég viðurkenni að mér finnst það líka svolítið óþægilegt og hef ég nú tekið þátt í nokkrum mótmælum sjálf.
Það gladdi mitt litla flensuhjarta á fimmtudaginn að sjá myndir frá Ráðhúsinu þar sem fólk þorði að láta í sér heyra í stað þess að skrifa bara enn eina bloggfærsluna um skrípaleikinn sem hefur átt sér stað þarna við tjörnina upp á síðkastið.
...segir bloggarinn ég!
Athugasemdir
Hæ hæ.mikið rosalega er ég sammála þér (einsog oftast jú) ég var svo glöð að Íslendingar væru ekki alveg dauðir fyrir öllu og létu nú loksins heyra í sér og þú getur ekki imyndað þér hvernig ég lét þegar ég heyrði þessa hálvita Vilhjálm og fleiri tala um hvað þetta væri nú hryggilegt að heyra í þessum skríl og svona vinnubrögð væru nú ekki góð,EN HVAÐ UM ÞEIRRA VINNUBRÖGÐ hvernig er hægt að vera svona heimskur og vitlaus,og ég bara spyr hver er veikur???????.Ég veit að ég varð veik af ógleði að hlusta á þá.Ég veit ekki hvernig þetta er alltsaman að enda hérna á landinu okkar góða og varla heyrist múkk í Ríkisstjórninni hér,hún er bara alveg steingeld.púha.jæja þá er ég búinn að ausa úr mérog get þá haldið mér saman eitthvað frammá vor.knús til ykkar og einsog einhver sagði einhverstaðar.VÉR MÓTMÆLUM ALLIR.
Eygló frænka (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 17:35
Mæli með að þú farir bara blogga sjálf með allan þennan blóðhita frænka kær. Já, þetta er allt saman steingelt lið þessir pólitíkusar, skil ekkert hvað verður um allan blóðhitan þeirra, þeir þylja bara sama bullið upp og allir hinir.
Anna Þorbjörg Jónasdóttir, 30.1.2008 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.