Betra er seint en aldrei, að rifja upp síðastliðið ár. Nokkrar breytingar áttu sér stað á högum mínum og á heildina litið var 2007 gott ár þó auðvitað vona ég að 2008 verði betra. Græðgin endalaus, alltaf vill maður meira, betra og stærra.
Fyrsta mánuð ársins var ég í Svíþjóð og vann hjá kapitalíska risanum Samsung. Ferðaðist á hverjum degi klukkustund til að komast í vinnu og eyddi svo vinnudeginum í að færa inn pantanir kaupóðra Dana. Þrjú af bekkjarsystkinum okkar í Uppsala komu frá sínum nýju heimalöndum í heimsókn til okkar Aysu. Rifjuðum við upp gamla tíma og skemmtum okkur stórvel. Í seinni hluta mánaðar fengum við sambýlingar þær fréttir að við værum að missa íbúðina okkar og þyrftum að flytja út hið fyrsta. Ég í panikk og eftir að hafa skoðað okraða sænska leigulista ákveð ég að flytja heim.
Svo flutti ég með mitt hafurtask enn eina ferðina í foreldrahús á Akureyri. Hafði stórar hugmyndir um að finna góða vinnu á Akureyri, fá fullt af peningum og búa frítt hjá pabba og mömmu. Ekki varð sú þó raunin. Enginn virtist vilja ráða mig með mínar fínu gráður. Fór því skömmustuleg niður á Vinnumálastofnun og skráði mig atvinnulausa. Framtíðin var ekki björt, orðin atvinnulaus aumingi í foreldrahúsum.
Dagarnir siluðust áfram í eymd og volæði. Þó í rauninni ekki, var farin að njóta þess að sofa lengi, fara í sund og göngutúra og horfa á sjónvarpið og fá góðan mömmumat. Ekki erfitt að venjast svoleiðis lífi og kannski hættulega þægilegt.
Hápunktur mánaðarins var að fá páskaegg frá pabba og mömmu eins og hin litlu börnin. Mamma var greinilega orðin eitthvað leið á að hafa mig hangandi heima svo hún reddaði mér vinnu á sjúkrahúsinu til bráðabirgða. Þangað snéri ég eina ferðina enn eftir að hafa byrjað sjúkrahúsferil minn sem starfstúlka sumarið 1996 og verið þar nánast síðan á sumrum.
Gafst upp á að finna vinnu á Akureyri og reddaði mér einni slíkri í Reykjavík. Flutti þangað og byrjaði að vinna í Þjónustumiðstöð Vesturbæjar og er þar enn. Aysu kom í heimsókn og reyndi ég að vera góður gestgjafi og dró hana á Mývatn, á hestbak, á barinn, í sund o. fl. Held ég hafi staðið mig ágætlega og finnst henni Ísland best í heimi.
Júní fór mest í að hanga á Austurvelli eða Arnarhóli með góðum vinum og naut góða veðursins. Var reyndar ekki alveg að skilja hvað allir voru að missa sig yfir þessari ,,hitabylgju" enda kannski 15° og sól ekkert stórkostlegt, en gott þó auðvitað miðað við Ísland. Litla systir útskrifaðist úr MA, fékk alls kyns verðlaun, ég fékk minnimáttarkennd en auðvitað stollt. Heyrði Hesta-Jóa nokkrum sinnum á útskriftinni og er strax farin að kvíða fyrir 10 ára endurfundum og þurfa að heyra það skrilljón sinnum í viðbót.
Í júlí komum við vinkonur frá ýmsum heimshornum til Danmerkur til að fagna því að ein af piprunum úr MA var gengin út. Brúðkaup Dísar og Noah var yndislegt partí (mér finnst ekki móðgandi að kalla brúðkaup partí því það er það sem þetta er). Áttum góða daga í Danaveldi enda ekki allt of oft sem við hittumst. Í þessum mánuði gerðist ég fullorðin og keypti mér íbúð. Fannst ég yfirmáta dugleg að standa í þessu braski ein og óstudd.
Þar sem ég var komin með fasta búsetu og orðin sjálfs míns herra, ákvað ég að láta gamlan draum rætast og eignast eigið gæludýr. Fór á Kattholt og tók að mér munaðarlausa kisu sem fannst á vappi í Vesturbænum. Þar sem ég vinn við það að þjónusta Vesturbæjinga lá það beint við að ég tæki munaðarleysingja þaðan. Fór til Akureyrar um verslunarmannahelgina og fattaði að ég er orðin gömul og finnst verslunarmannahelgi leiðinleg.
Dagný litla systir flutti inn til mín og ég fór að arðræna hana eins og sönnum leigusala sæmir. Hún fór að vinna í tískubúð og ég nýt góðs af og er nú alltaf í tísku, eða svona.
Í október var Airwaves sem ég fór á í fyrsta skipti. Litli bróðir kom til að vera á hátíðinni og sló gegn í Grapewine talandi um ladies og booties. Ég var árinu eldri og því ber svo sem að fagna.
Man ekkert sérstakt í nóvember enda svo sem frekar leiðinlegur mánuður.
Desember er alltaf góður mánuður því þá eru jól og þá koma allir heim. Hittumst allar vinkonurnar sem gerist á nokkurra ára fresti. Sigga Larsen var á Íslandi um jólin í fyrsta skipti í yfir áratug, ég fór með kött í flugvél, tók aftur upp á því að vera flughrædd, fór í partí, á Karólínu, át og drakk og hafði það allt of gott. Var því fúl fyrstu daga nýja ársins en er orðin sátt núna.
Áramótaheitið í ár; að vera ekki fúl og pirruð- brotið á 3ja degi ársins. Góður árangur það!
Athugasemdir
Takk fyrir thetta, helviti finn pistill og gaman ad farid se ad oskum minum. Thetta var greinilega vidburdarikt ar hja ther gamla!!
Solrun (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 14:47
Sammála Sólsý, skemmtilegur pistill! gaman að heyra svona samansafn af upplifunum ;o) íbúðarkaupin voru nú ansi flott og svo fannst mér nú Þingvallarferðin okkar í sumar ansi góð! Hippabúrka...ólæti... flugur...flögur... Bjarni símamær og fleira skemmtilegt kveðja frá Osló
thorhildur (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 18:03
Takk fyrir það stúlkur. Gleymdi nú ekkert útilegunni góðu, mundi bara ekki alveg hvort hún var í júlí eða hvað? Var reyndar búin að velja mynd úr henni líka, þegar þú Þórhildur og Stína eruð inni í tjaldinu árla morguns, núvaknaðar og hressar. Vonandi verður farið í einhverja reisu á þessu ári!
Anna Þorbjörg Jónasdóttir, 17.1.2008 kl. 08:23
Já skemmtilegur pistill!! Sýnir manni að þetta var nú bara alveg hreint ágætis ár, við gerðum margt skemmtilegt saman.
Stína (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 08:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.