Tengsl fólks við veraldlega hluti eru afar mismunandi. Sumir bindast dauðum hlutum engum sérstökum böndum á meðan aðrir taka ástfóstri við þá. Ég verð víst að viðurkenna að ég tilheyri seinni hópnum. Það þykir mér ekkert sérstaklega gott en það er staðreynd engu að síður. Að henda dóti er fyrir mér mikið átak. Ég veit ekki hversu oft ég hef hent einhverju í ruslið og síðan sótt það aftur eftir smá umhugsun. Man sérstaklega eftir sjúskuðu náttbuxunum sem ég dró aftur upp úr ruslapokanum þegar ég var við það að henda honum í ruslagáminn uppi á Gámaþjónustu. Hef reyndar aldrei farið í þær ágætu buxur eftir það og veit í raun ekki hvar þær eru, en mér líður alla vega betur að hafa bjargað þeim frá köldum ruslahaugnum.
Þegar ég var lítil var ég heltekinn af söfnunaráráttu. Ég held að ég hafi safnað nánast öllu sem hægt var. Ópalpakkar, minnisblöð, tappar af smartiespökkum, spil, servéttur, alls kyns sælgætisbréf var t.d. það sem ég sankaði að mér. Þetta hefur valdið móður minni hugarangri í gegnum tíðina, enda er hún einstaklega dugleg við það að henda (eins og t.d. öllu plötusafninu hans pabba, sem hann grætur enn rúmum 20 árum síðar). Þannig notfærði hún sér þann tíma þegar ég var í sunnudagaskólanum (ó já, þangað fór ég á hverjum sunnudegi í fjölda ára) til að fara inn í herbergið mitt með svartan ruslapoka og lét greypar sópa. Þessu tók ég þó aldrei eftir heldur komst að því þegar mér var sagt frá þessu mörgum árum síðar.
Þið getið því rétt ímyndað ykkur gleði móður minnar þegar ég loks eignaðist mitt eigið húsnæði og hún gat sent mér alla pappakassana sem voru til heima, fullir af draslinu mínu. Nú hef ég allt dótið mitt hjá mér og get safnað að vild án þess að eiga á hættu að því verði fleygt í einhverri tiltektinni.
Mér varð hugsað til þessa þar sem ég er með tiltektaræði í vinnunni og hendi öllu sem ég finn, svona nánast. Veit ekki hví mér er það svona auðvelt á meðan mér finnst ég vera að rífa úr mér hjartað þegar ég sé mig tilneydda til að losa mig við styttu sem ég fékk í 8 ára afmælisgjöf.
Athugasemdir
Guð ég var ein af þessum sem safnaði öllu mögulegu, til dæmis safnaði ég stjélfjöðrum sem duttu af páfagauknum mínum og svo safnaði ég yddi hehe. Mamma helvísk var líka dugleg að láta hendur sópa en munurinn var að ég uppgötvaði alltaf að dótið mitt var horfið og hún þóttist ekkert vita, reyndar henti hún kannski ekki öllu heldi plantaði því uppi á háalofti. Það versta var þó að einu sinni tók hún rosa flott barbie borð og stóla sem var uppáhaldsleikfangið mitt og svo fann ég það tíu árum seinna á háaloftinu og hafði þá náttúrulega enga gleði af því :( Hún henti nú reyndar líka dagblaðinu áður en pabbi náði að lesa það!
Kristrún (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 14:40
hey Anna,
þú átt ekki bíl er það nokkuð? viltu kaupa minn? skal selja þér hann á 300þ plús yfirtöku á láni....gæðakaup, gerast ekki betri á eyrinni.
þá ertu komin með enn einn hlutinn sem aldrei er hægt að henda.
á líka alls konar dót sem ég þarf að losna við áður en ég flyt.
Siggi 4b (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 14:18
Siggi minn, er sérlegur andstæðingur einkabílsins og mun ekki versla slíkan fyrr en e.t.v. ég eignast börn. En takk samt fyrir gæðaboð!
Er annars að fara að hitta Höllu og Þóreyju í dag með Stínu, hef ekki hitt þær í fleiri ár held ég bara. Merkilegt að þú skulir láta heyra í þér sama dag!
Anna Þorbjörg Jónasdóttir, 12.11.2007 kl. 14:40
svona er lífð.....skilaðu kærri kveðju,
ps. er að flytja til spánar 5.des. mundu að það er skyldu heimsókn til mín ef þú átt leið hjá Costa del Bóbó.
Siggi 4b (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 14:48
Mun hafa það í huga þegar ég fer að sakna sólar!
Góða ferð
Anna Þorbjörg Jónasdóttir, 12.11.2007 kl. 14:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.