Kofamiðbærinn góði

Þar sem ég bý samkvæmt áliti fjölmiðla og eflaust margra annarra, við viðbjóðslegustu götu Reykjavíkurborgar (Hverfisgötu), hef ég að sjálfsögðu sterkar skoðanir á þessum svokallaða miðbæjarvanda.  Ég vil búa í miðbænum af því að þar er yfirleitt gott að búa og þrátt fyrir nokkur ógeðsleg hús og lóðir þar er meirihlutinn sérlega krúttlegur og heimilislegur.  Það sorglegasta við miðbæinn finnst mér einmitt að þessum krúttlega hluta er smám saman verið að eyða.  Sætu hlýlegu kofarnir sem gæða miðbæinn óneitanlega mesta sjarmanum, þykja ópraktískir og því má þá rífa.  Það er búið að tala um þetta í mörg ár og auðvitað skiptar skoðanir en hverjum meirihluta tekst að rífa nokkur hús eða alla vega tæma þau og láta þau grotna niður.  Ég er þó engin bókstafstrúar-kofakona og skil vel að einhverjir hjallar séu of illa farnir til að borgi sig að gera við þá og þó mér hafi þótt leitt þegar Sirkus var lokað þá hef ég á því nokkurn skilning þar sem húsið var að hruni komið.  Á móti kemur þó að til hefur staðið að rífa Sirkus (og það sem undan var) í mörg ár, og því hafa eigendur aldrei séð það borga sig að gera nokkuð fyrir húsnæðið.  Það sorglegasta sem ég hef nú séð vera að gerast við Laugarveginn eru að 2 mjög fín hús standa nú tóm og munu líklega verða það áfram þar sem ekki er orðið ljóst hvað gera skuli við þann reit sem þau standa á.  Þetta eru húsin þar sem Indókína var og einhver barnafatabúð.  Ég verð óheyrilega sorgmædd að horfa inn um gluggana og þar er ekkert.  Reyndar eru kannski Lækjargötubrunarústirnar enn sorglegri en það er komið ár síðan bruninn varð en enn þá hefur ekkert gerst ef frá eru taldar þessar ,,skemmtilegu" framhliðar sem hafa verið settar í kringum rústirnar.  Virkilega ömurleg lausn til að fela ljótleikann, að byggja þykjustunni hús.

Ekki er ég nú Reykvíkingur en finnst stundum eins og mér þyki töluvert vænna um það sem telst það reykvískasta (gott orð!) á landi hér, miðbæinn, heldur en þeim sem ráða því hvað verður um hann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband